Vatnstjón er ein algengasta orsök tjóna á heimilum hér á landi. Hér höfum við nokkur ráð til að reyna að koma í veg fyrir slík tjón á heimilinu. Fyrstu viðbrögð skipta miklu máli við að lágmarka það tjón sem kann að verða hverju sinni.
Gott er að venja sig á að hafa þvottavélar og þurrkara ekki í gangi þegar enginn er heima. Sama á við um uppþvottavélar.
Veist þú hvar vatnsinntakið er í húsinu? Hægt er að fá merkingar hjá Sjóvá. Við mælum með að hafa heita og kalda vatnið merkt þannig að auðvelt sé að skrúfa fyrir ef til tjóns kemur.
Mikilvægt er að setja öryggisfestingar á þvottavélar sem standa ekki á gólfi.
Ef farið er í langt frí mælum við með að skrúfa fyrir vatnið í uppþvottavélina og þvottavélina.
Vissirðu að hægt er að tengja vatnsskynjara við öryggiskerfi hússins? Mælt er með því að hafa vatnsskynjara í votrýmum, sér í lagi ef ekki er niðurfall í gólfi.
Fylgjumst vel með þar sem vatnslagnir eru. Lagnaefni hefur ákveðinn endingartíma. Gott er að venja sig á að fylgjast til dæmis með vatnstengdum ísskápum.
Dæmi um einkenni leka:
- Málning eða klæðning bólgnar á veggjum
- Áferð gólfefnis breytist og bólgnar
Lokið strax fyrir vatnsinntak.
Gætið fyllstu varúðar þar sem heitt vatn flæðir.
Hringið í 112 ef þið ráðið ekki við aðstæður eða teljið að hætta sé á ferðum.
Hafið strax samband við okkur til að lágmarka tjón og láta meta skaðann. Tjónavakt Sjóvá er með síma 4402424 og aðstoðar í neyðartilfellum.
Við mælum ávallt með að lagnavinna sé unnin af fagmönnum.
Munum eftir að láta lofta vel um húsnæði. Mikilvægt er að opna glugga reglulega.
Fylgjumst vel með fúgum á milli flísa og þéttingum við sturtubotna og baðkör. Þéttingar þarf að endurnýja reglulega.
Hreinsa þarf reglulega öryggisniðurföll á baðherbergjum, í þvottahúsum og niðurföll í sturtuklefum.
Algengt er að lagnir tærist í sundur vegna utanaðkomandi raka. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast vel með sprungum í útveggjum og frágangi við glugga og hurðir.
Hreinsum niðurföll utandyra svo þau stíflist ekki. Þetta á sérstaklega við á haustin og vorin.