Sjóvá er Fyrirtæki ársins 2025 samkvæmt niðurstöðum könnunar VR. Sjóvá er eitt fjögurra fyrirtækja sem hlýtur þessa viðurkenningu í flokki stórra fyrirtækja. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu miðvikudaginn 15. maí, þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, afhentu verðlaunin.
Í könnun VR um Fyrirtæki ársins er heildareinkunn fyrirtækja reiknuð út frá viðhorfi starfsfólks til ólíkra þátta starfsumhverfis. Spurt er um stjórnun, launakjör, starfsanda, jafnrétti, starfsánægju og fleira.
Þau fyrirtæki sem skara fram úr í könnuninni hljóta formlega viðurkenningu, það er 3-4 efstu fyrirtækin í flokkunum stór fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki og lítil fyrirtæki.
„Við lítum þessa viðurkenningu sem staðfestingu á sterkri starfsmenningu sem byggir á trausti, fagmennsku og skýrum markmiðum. Það skiptir máli, því ánægt starfsfólk skilar sér í betri þjónustu fyrir viðskiptavini,“ segir Ágústa Björg Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Sjóvár.
Viðurkenningin er í samræmi við aðra mælikvarða sem endurspegla upplifun viðskiptavina; samkvæmt Ánægjuvoginni hefur Sjóvá verið með ánægðustu viðskiptavini landsins síðustu átta ár
„Við tökum þessari viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram að þróa vinnuumhverfi sem styður við framúrskarandi þjónustu. Það er lykilatriði í að standast og fara fram úr væntingum viðskiptavina,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar má sjá á vef VR.