Ljósafossganga Ljóssins, endurhæfingar fyrir krabbameinsgreinda, fór fram laugardaginn 15. nóvember síðastliðinn í blíðskaparveðri. Metþátttaka var í göngunni þar sem um 900 manns tóku þátt í að lýsa upp Esjuna.
Ljósafossinn var sá bjartasti hingað til og söfnuðust 1.800.000 kr. í göngunni en Sjóvá styrkti Ljósið um 2.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Allir göngugarpar eiga miklar þakkir skildar fyrir að vekja með þessu móti athygli á dýrmætu endurhæfingarstarfi Ljóssins, baráttu þeirra sem glíma við krabbamein og fyrir að minnast þeirra sem við höfum misst í baráttunni við krabbamein.
Þorsteinn Jakobsson, öðru nafni Fjalla-Steini, leiddi gönguna en fyrir rúmum 15 árum fékk hann þá hugmynd að koma á fót árlegri ljósagöngu til að lýsa upp myrkrið fyrir gott málefni. Úr varð Ljósafossinn sem hefur sannarlega fest sig í sessi.
Þetta árið nutu viðstaddir göngunnar í nóvemberblíðu og Möndlubásinn var á svæðinu með ilmandi möndlur og heitt kakó til sölu. Einnig var hægt að verða sér út um falleg kerti og höfuðljós þar sem ágóði af sölu rann til Ljóssins. Björgunarsveitin Kjölur var Ljósinu til halds og trausts og gat göngufólk því notið göngunnar áhyggjulaust og styrkt gott málefni í leiðinni.
Við hlökkum til að endurtaka leikinn að ári og minnum á að gerast má Ljósavinur þar sem hægt er að styrkja starfsemi Ljóssins með mánaðarlegu framlagi.
