Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir hefur verið ráðin útibússtjóri Sjóvá á Selfossi og hóf hún störf í nóvember. Elísabet er með meistaragráðu í forystu og stjórnun og starfaði síðast sem verkefna- og markaðsstjóri hjá Sigtúni þróunarfélagi, sem hefur staðið að uppbyggingu í miðbæ Selfoss.
Í viðtali sem birtist á dögunum í Dagskránni á Suðurlandi segir Elísabet Ósk nýja starfið bæði spennandi og krefjandi. Til standi að efla þjónustu og tengsl Sjóvá við samfélagið á öllu Suðurlandi.
„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og á sterka tengingu við svæðið allt auk þess sem ég þekki samfélagið vel. Útibú Sjóvá á Suðurlandi eru nú tvö, á Selfossi og í Vestmannaeyjum, en svæðið nær allt frá Þorlákshöfn og nánast að Höfn í Hornafirði, þar sem nýlega opnaði nýtt útibú. Svæðið er stórt og fjölbreytt og tækifærin óteljandi. Ég sé fyrir mér að efla þjónustuna með því að vera sýnileg, kynnast viðskiptavinum, hlusta á þeirra þarfir og byggja upp traust og persónuleg tengsl. Markmiðið mitt er að Sjóvá verði fyrsta val viðskiptavina á Suðurlandi þegar kemur að tryggingum. Sjóvá hefur verið duglegt við að opna svokölluð pop-up útibú þar sem starfsmenn koma sér fyrir á góðum stað þar sem ekki er útibú starfandi og bjóða fólki að kynnast þjónustunni og fyrirtækinu. Það hefur heppnast vel og er stefnan að halda því áfram á svæðinu.“
Sjá allt viðtalið við Elísabetu Ósk á dfs.is, Fréttavef Suðurlands.

Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, nýr útibússtjóri Sjóvá á Selfossi.