Breytingar gerðar á skipuriti

Gerðar hafa verið breytingar á skipuriti Sjóvá og hefur Steinunn Guðjónsdóttir Hansen tekið við starfi framkvæmdastjóra Sjóvá-Almennra líftrygginga. Áður heyrðu málefni Sjóvá-Almennra líftrygginga undir Hermann Björnsson, forstjóra Sjóvá, sem einnig var framkvæmdastjóri líftryggingafélagsins. Þórir Óskarsson tekur við starfssviði tryggingastærðfræðings Sjóvá og Sjóvá Líf af Steinunni.

Steinunn hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 1999. Frá 2016 til loka febrúar 2025 bar hún ábyrgð á starfssviði tryggingastærðfræðings félaganna og var forstöðumaður áhættustýringar á árunum 2011-2015, en fyrir þann tíma var hún tryggingastærðfræðingur í hagdeild og tryggingastærðfræðingur Sjóvá Lífs. Steinunn er með M.Sc. í tryggingastærðfræði frá Háskólanum í Amsterdam og M.Sc. í stærðfræði frá Háskólanum í Groningen.

Þórir Óskarsson er með Cand.Act. í tryggingastærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Þórir hefur starfað hjá Sjóvá síðan í desember 2020. Þar áður starfaði hann hjá VÍS hf. í 11 ár sem forstöðumaður áhættustýringar og síðar yfir starfssviði tryggingastærðfræðings. Áður vann Þórir sem tryggingastærðfræðingur hjá Købstædernes Forsikring í Danmörku í 3 ár.

Steinunn Guðjónsdóttir Hansen og Þórir Óskarsson