Ásdís Hrund ráðin áhættustjóri

Ásdís Hrund Gísladóttir hefur tekið við starfi áhættustjóra hjá Sjóvá en hún hefur gegnt starfi sérfræðings í áhættustýringu hjá félaginu frá árinu 2020.

Ásdís hefur lokið B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Áður en hún kom til starfa hjá Sjóvá vann hún sem sérfræðingur í fjárhagslegu eftirliti með lífeyrissjóðum og vátryggingafélögum hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

 „Ég hef starfað hjá Sjóvá allt frá árinu 2012, með hléum. Það sem hefur dregið mig að Sjóvá eru bæði spennandi verkefni og einstök vinnustaðarmenning,“ segir Ásdís Hrund. „Hér ríkir samheldni, traust og metnaður til að tryggja ánægðari viðskiptavini og ég tel það enga tilviljun að Sjóvá hafi verið efst í Íslensku ánægjuvoginni meðal tryggingafélaga átta ár í röð. Það segir mikið um það frábæra starf sem hér er unnið til að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu.“

Ásdís Hrund segist vera full tilhlökkunar að takast á við nýtt hlutverk sem áhættustjóri félagsins.

„Fyrir mér snýr áhættustýring að því að gera góðan rekstur enn betri, en í því getur falist að lágmarka tapsáhættu, greina áhættur og tækifæri og betrumbæta ferla. Það verður spennandi að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á sterkum og traustum rekstri Sjóvá.“