Tími um­hleypinga

Fátt er oftar rætt á Íslandi en veðrið. Íslendingar sem dvelja erlendis spyrja iðulega um veðrið á Íslandi og hafa oft furðu mikinn áhuga á því. Römm er veðurtaugin, enda ekki skrýtið þar sem veðurfar hefur í gegnum aldirnar haft mikil áhrif á daglegt líf og afkomu Íslendinga. Oft eru umræður um veðrið inngangur að dýpri samtölum eins og rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir fangar svo skemmtilega í skáldsögunni Eden:

„Nágranni minn fylgist þögull með mér nokkra stund og ég finn að honum liggur eitthvað fleira á hjarta, ég skynja að það er persónulegt og að hann leitar að leið, að hann veltir fyrir sér hvernig hann geti byggt brú frá veðurspánni næstu daga sem hann er búinn að tíunda fyrir mér, yfir í það sem hann ætlar að deila með mér.“

Eitt sinn vorum við í sterkari tengslum við náttúruna og fólk las ýmist í skýin, hegðun dýra eða spáði jafnvel í garnir. Í dag höfum við veðurfræðinga og veðurspár til að leiðbeina okkur. En þrátt fyrir það verður ekki við allt ráðið og veðrið setur oft strik í reikninginn. Hvernig getum við varið okkur fyrir tjóni og slegið varnagla þegar náttúruöflin eru annars vegar?

Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna
Sigurjónsdóttir