Akstur með ferðavagna

Ekið með ferðavagna

Nú fer í hönd ein mesta ferðahelgi ársins og fjöldi ökutækja er með hjólhýsi, fellihýsi eða aðra ferðavagna í eftirdragi.  Þeir sem eru vanir að ferðast með slíka vagna þekkja vel að aksturinn getur verið óstöðugri og bílar geta rásað til á veginum. Þetta á ekki síst við um þegar vindur blæs en ferðavagnar geta tekið á sig töluverðan vind. 
Víða um land eru  vindasamir staðir þar sem varasamt getur verið að keyra með ferðavagna. Það er gott að hafa í huga að vindhviður geta verið allt að tvöfalt öflugri heldur en stöðugur vindur sem birtur er á veðurkortum.  Á vef Vegagerðarinnar og á Vindakorti Sjóvár má sjá upplýsingar um vind og  vindhviður frá sjálfvirkum veðurstöðvum, textalýsingar á vindasömum stöðum og upplýsingar um umferð. Gott er að kynna sér ástandið á þeim vegum sem áætlað er að keyra áður en lagt er af stað.

Akstur á tjaldsvæðum

Með tilkomu ferðavagna jókst umferð um tjaldsvæði verulega þar sem aka þarf vögnunum inn á tjaldsvæðið og iðulega eru bílunum lagt við vagnana en ekki á bílastæðum. Margir ökumenn eru óvanir að bakka á þröngum svæðum með ferðavagn. Á tjaldsvæðinu gerum við síður ráð fyrir umferð ökutækja og börnin sem eru frjáls í leik á svæði sem þau þekkja ekki og meta aðstæður ekki rétt. Þessu fylgir aukin hætta á að ekið sé á fólk, ekki síst börn sem eru að leik. Þá hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa sérstaklega vakið athygli á hættu sem skapast þegar vegfarendur ganga eða hlaupa meðfram ökutækjum á ferð og á það sérstaklega við um börn.

Sjóvá hvetur alla ferðamenn til að sýna fyllstu aðgæslu hvort sem þeir eru á ferð um landið eða njóta útivistar á einhverju hinna fjölmörgu tjaldsvæða landins. Með aðgát og fyrirhyggju getum við öll komið heil heim.

Hvað getur þú gert?

 • Athugaðu að leyfður hámarkshraði er lægri fyrir þá sem draga ferðavagna
 • Vertu viss um að bremsur ferðavagnsins séu í lagi
 • Farðu yfir ljósabúnaðinn á ferðavagninum áður en lagt er af stað
 • Notaðu alltaf öryggiskeðju þegar vagninn er í notkun
 • Kynntu þér hvort sameiginleg þyngd bíls og ferðavagns sé hæfileg miðað við ökuréttindi
 • Hafðu spegla með framlengdum örmum
 • Aktu hægt inn á tjaldsvæði og leggðu bílnum
 • Gakktu um til þess að finna tjaldstæði í stað þess að aka um
 • Mundu að bílar og aftanívagnar eru oft háir og því getur verið erfitt að sjá börn að leik
 • Þegar bakka þarf þá er góð regla að láta einhvern úr fjölskyldunni segja sér til, bæði til þess að koma í veg fyrir tjón og forða slysi.
 • Hafðu í huga að börn eiga erfitt með að meta hljóð og vita oft ekki hvaðan bíllinn kemur
 • Slepptu því að tala í síma og aka um tjaldstæði

SJ-WSEXTERNAL-2