112 dagurinn er í dag

112 dagurinn er í dag

112 dagurinn er í dag. Dagurinn er tilefni til þess að vekja athygli á ýmsum málefnum sem tengjast skyndihjálp og viðbragði í neyð. Að þessu sinni eru ferðalangar og útivistarfólk hvattir af Neyðarlínunni og viðbragðsaðilum til að gæta öryggis á ferðum sínum að vetrarlagi, hvort sem er í byggð á þjóðvegum eða utan alfaraleiðar.

Við vitum að á Íslandi geta veður verið válynd og aðstæður geta breyst hratt. Viðbragðsaðilar vilja þannig minna ferðalanga á að vanda sig við undirbúning ferðalaga, gera ferðaáætlun og láta aðra vita af ferðum sínum. Of oft kemur það fyrir að ferðalangar leggja upp í ferðalög þrátt fyrir ítrekaðar veðurviðvaranir og ófærð. Vegagerðin hefur brugðist við þessu með því að útbúa lokunarhlið við fjölda leiða á þjóðvegi 1 og víðar og eru vegfarendur hvattir til að virða merki um lokun vegar.

Það er á ábyrgð okkar allra að vera vel búin þegar við leggjum upp í leiðangur og huga vel að eigin öryggi við öll tækifæri hvort sem það á akstri eða útivist hvers konar. Á vefnum Safetravel.is er að finna gagnlegar upplýsingar um undirbúning fyrir ferðalög og útivist. Á vefsvæðum Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar eru ávallt tiltækar upplýsingar um færð og veður. Þá er rétt að minna á vefinn Vindakort Sjóvár en þar má fá upplýsingar um vindasama staði sem eru varhugaverðir fyrir þá sem aka á stórum ökutækjum eða með tengivagna. Að lokum bendum við á að á vef Neyðarlínunnar má kynna sér hvernig maður ber sig að þegar hringt er í 112 og á skyndihjálparvef Rauða Krossins er hægt að nálgast skyndihjálpar app.

SJ-WSEXTERNAL-3