EN
  • Mínar síður
Loka valmynd
  • Ársreikningur
  • Rekstur og þjónusta
  • Stjórnarhættir
  • UFS

    Rekstur og þjónusta

    Við leggjum metnað í að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu, sama hvort það er með rafrænum leiðum eða í útibúum um allt land. Við leitumst stöðugt við að auka hraða í tjónaþjónustu okkar og nálgast hana með umhverfisvænar áherslur að leiðarljósi. Forvarnir eru í öndvegi í öllu okkar starfi.

    Ársreikningur

    Sala og ráðgjöf

    Ánægja viðskiptavina áfram í forgrunni

    Við hjá Sjóvá höfum um árabil unnið eftir skýrri framtíðarsýn um að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina, sama hvort um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki, við sölu trygginga, ráðgjöf eða þjónustu vegna tjóns. Við héldum samhent áfram á þessari braut á árinu 2021 og náðum mjög góðum árangri í þessum efnum, líkt og undanfarin ár.

    Í byrjun árs 2022 hlaut félagið þá viðurkenningu að vera efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni, fimmta árið í röð. Þetta er mikil viðurkenning á þeirri þjónustu sem veitt er hjá Sjóvá og því hvernig starfsfólk nálgast sína vinnu. Viðurkenningin segir einnig til um sterka ímynd og stöðu félagsins á markaði. Við erum þakklát viðskiptavinum okkar og lítum á þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram að veita stöðugt betri þjónustu.

    Þjónusta eftir þörfum hvers og eins

    Mikið er lagt upp úr því að þjónusta félagsins sé öllum viðskiptavinum aðgengileg, með þeim leiðum sem þeir sjálfir kjósa. Við höfum skrifstofur okkar opnar fyrir þá sem vilja koma til okkar, á sama tíma og stöðugt er unnið að þróun stafrænna lausna. Við erum til staðar í öllum landshlutum með 11 útibú og 9 þjónustuskrifstofur, auk höfuðstöðvanna í Reykjavík. Útibú okkar eru staðsett á Akranesi, í Borgarnesi, á Ísafirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og Reyðarfirði, á Selfossi, í Reykjanesbæ og Vestmannaeyjum.

    Á árinu 2021 tókst að hafa þjónustuskrifstofur félagsins að mestu leyti opnar, þrátt fyrir að ástandið væri á köflum erfitt. Allt gekk þetta upp vegna þess hversu samvinnufúsir viðskiptavinir okkar eru og starfsfólkið lausnamiðað. Aðstæður síðustu tveggja ára hafa að auki hvatt viðskiptavini til að eiga við okkur samskipti með rafrænum leiðum, sem hafa fyrir vikið aukist til muna. Sú þróun er afar ánægjuleg enda sýna mælingar okkar að það er ekki síðri ánægja með þá þjónustu sem við veitum með rafrænum hætti.

    Hvort sem fólk leitar eftir ráðgjöf, vill kaupa tryggingar, tilkynna tjón eða annað, þá leggjum við áherslu á að svara öllum erindum hratt og örugglega. Fyrirspurnum sem berast okkur í gegnum netspjall hefur haldið áfram að fjölga og sömuleiðis nýta sífellt fleiri viðskiptavinir sér Mitt Sjóvá. Sá vefur tók miklum breytingum á árinu sem miðuðu allar að því að gera hann notendavænni og upplýsingar aðgengilegri. Markmið okkar er að einstaklingar og fyrirtæki í viðskiptum geti þjónustað sig í auknum mæli sjálf með rafrænum hætti, ef þau kjósa það. Að sama skapi var haldið áfram að þróa sjova.is með sömu áherslur að leiðarljósi, að veita aðgengilegar upplýsingar um tryggingar á mannamáli.

    Ánægja skilar auknum viðskiptum

    Markvissar aðgerðir síðustu ára til að bæta vátryggingarekstur félagsins héldu áfram að skila árangri og gekk reksturinn afar vel á árinu. Iðgjaldavöxtur ársins nam 15% og er hann drifinn áfram af góðum vexti bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá aukningu iðgjalda á fyrirtækjamarkaði á árinu 2021 eftir samdrátt á fyrra ári og þá sérstaklega hjá fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar. Áfram var áhersla lögð á að vinna náið með þeim fyrirtækjum sem fundu fyrir neikvæðum afleiðingum heimsfaraldursins og samkomutakmarkana, en sem betur fer voru þau ólíkt færri en árið á undan.

    Á einstaklingsmarkaði gekk einstaklega vel og er ljóst að sú framúrskarandi þjónusta sem við leggjum okkur fram við að veita og frumkvæði starfsfólks í samskiptum við viðskiptavini skilaði sér. Á árinu fengu 30 þúsund tjónlausir viðskiptavinir okkar samtals 723 milljónir í Stofnendurgreiðslu. Var það 27. árið í röð sem við endurgreiðum tjónlausum viðskiptavinum í Stofni og erum við eftir sem áður eina tryggingafélagið á íslenskum markaði sem gerir það. Viðskiptavinir okkar í Stofni hafa aldrei verið fleiri, en á haustmánuðum síðasta árs voru þeir orðnir rúmlega 40 þúsund talsins.

    Gerum tryggingar betri

    Haldið var áfram að þróa vörur félagsins með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi. Í aprílmánuði var Sjóvá fyrst tryggingafélaga á Íslandi til að gera mikilvægar breytingar á kaskótryggingum ökutækja sem fela meðal annars í sér að nú eru bætt tjón á undirvögnum sem verða ef bíll rekst niður í akstri, ekið er í holu eða eitthvað hrekkur upp undir hann, annars staðar en við akstur á fjallvegum, utan vega eða þegar ekið er yfir óbrúaðar ár.

    Fyrir breytingar voru slík tjón alfarið undanskilin í kaskótryggingum á íslenskum markaði og gat það komið sér illa, sérstaklega fyrir eigendur raf- og tengitvinnbíla en rafhlöður þeirra eru gjarnan lægsti punktur bílsins og kostnaður við viðgerðir eða útskipti á þeim getur skipt milljónum króna. Breytingin kemur sér líka vel fyrir eigendur bíla með sprengihreyflum því nú eru líka bættar skemmdir sem kunna að verða á vél og gírkassa við áðurnefndar aðstæður.

    Með þessari útvíkkun á kaskótryggingunni vakti ekki síst fyrir okkur að aðlagast breyttri samsetningu bílaflotans hér á landi og mæltist hún afar vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar sem og öðrum, s.s. í hópi rafbílaeigenda. Við erum stolt af því að hafa leitt þessa góðu breytingu til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar og þannig stuðlað að því að gera umhverfisvænni bifreiðar að enn aðgengilegri valkosti.

    Tjónaþjónusta

    Aukinn hraði með rafrænum leiðum

    Viðskiptavinir kjósa í vaxandi mæli að skrá tjón sín sjálfir með rafrænum hætti, enda höfum við unnið markvisst að því að tilkynningarferlið sé allt bæði einfalt og notendavænt. Á árinu 2021 jókst hlutfall rafrænna tjónstilkynninga frá viðskiptavinum og komu 36% tilkynninga í gegnum sjova.is. Við höfum straumlínulagað tjónaferlin og móttöku á rafrænum tilkynningum þannig að allar tilkynningar fara á eitt vinnuborð sem er vaktað af starfsfólki víðs vegar um landið. Tjónamatsmenn okkar nýta í auknum mæli einfalda tæknilausn, sem við köllum Innsýn, til að skoða tjón á vettvangi í gegnum snjalltæki viðskiptavina. Lausnin gerir viðskiptavinum mun auðveldara að koma réttum upplýsingum um umfang og aðstæður á vettvangi tjóns samstundis til okkar. Tjónamatsmenn geta fyrir vikið annast uppgjör tjóns ólíkt hraðar en áður, á grundvelli þeirra upplýsinga sem viðskiptavinir veita með þessari leið.

    Mikil hagræðing hefur orðið á árinu í vinnuferlum og samskiptum við samstarfsaðila í tjónaviðgerðum með því að nýta tæknina betur til sjálfvirkari vinnslu við tjónaafgreiðslu. Í dag nýtum við sjálfvirkni við yfirferð og svörun á tjónamati ökutækja, greiðslu rafrænna tjónareikninga og innheimtu á eigin áhættu í tjónum. Með þessum breytingum er tjónamötum nú svarað sjálfvirkt í um 40% tilvika og um helmingur allra rafrænna tjónareikninga vegna ökutækjatjóna eru greiddur sjálfvirkt. Þá hættu samstarfsaðilar okkar (s.s. bifreiðaverkstæði) að innheimta eigin áhættu viðskiptavina í ökutækjatjónum. Viðskiptavinir okkar þurfa því ekki lengur að leggja út fyrir eigin áhættu við afhendingu ökutækis eftir viðgerð heldur er hún skuldfærð beint á viðskiptavin eða dreift í samræmi við greiðslusamning. Þessari breytingu var sérstaklega vel tekið meðal viðskiptavina enda um mikla einföldun að ræða, sem og hagræðingu fyrir bæði viðskiptavini og samstarfsaðila, sem kom að auki ekki niður á heimtum þessara krafna.

    Það er öflugur hópur sérfræðinga sem kemur að tjónavinnslunni. Við hjá Sjóvá búum yfir öflugum hópi starfsfólks landið um kring sem býr yfir víðtækri menntun og fjölbreyttri reynslu, en auk þess er notast við aðkeypta sérfræðiaðstoð þegar aðstæður krefja. Við starfrækjum tjónavakt allan sólarhringinn til að bregðast megi strax við þörfum tjónþola þegar mikið liggur við. Viðskiptavinir hafa lýst yfir mikilli ánægju með þessa þjónustu. Það getur verið mikið áfall að lenda í tjóni og því eru viðskiptavinir okkar þakklátir fyrir að geta strax leitað aðstoðar hjá sérfræðingum sem vita hvernig á að bregðast við. Fyrstu viðbrögð geta jú haft afgerandi áhrif á umfang endanlegs tjóns og því breytt miklu um hagsmuni allra hlutaðeigandi.

    Umhverfisvæn tjónaafgreiðsla

    Sjóvá leitast við að upplýsa viðskiptavini sína um kosti umhverfisvænni tjónaafgreiðslu og hefur sett sér markmið um að minnka sóun við uppgjör tjóna og leitað ýmissa leiða til þess. Boðið er upp á þrjá valkosti á meðan ökutæki er í viðgerð. Viðskiptavinir velja hvort þeir fái bílaleigubíl til afnota, rafskutlu eða greiddar bætur fyrir afnotamissi þá daga sem viðgerðin stendur yfir. Þá höfum við sett okkur markmið um að auka hlutfall viðgerða á framrúðum í stað útskipta þegar slíkt er hægt. Rúðuviðgerð er enda mun umhverfisvænni leið m.t.t. kolefnisspors og tjónskostnaðar. Með sameiginlegu átaki með samstarfsaðilum hefur orðið mikil aukning á viðgerðum sem þýðir jafnframt umtalsvert hagræði fyrir viðskiptavini þar sem þeir greiða enga eigin áhættu eins og af bílrúðuskiptum. Einnig hafa verið sett markmið um aukna notkun á endurnýttum varahlutum þar sem því er við komið og þannig stuðlað enn frekar að umhverfisvænna tjónauppgjöri í ökutækjatjónum.

    Á árinu hófst formlegt samstarf við Fjölsmiðjuna um endurnýtingu ýmissa tjónsmuna en Fjölsmiðjan hefur það markmið að starfrækja verkþjálfunar-, framleiðslu- og fræðslusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Einnig hefur Sjóvá ráðstafað endurnýtanlegum tjónsmunum til annara samtaka sem vinna að samfélagslegri uppbyggingu. Með þessum hætti má vinna að aukinni sjálfbærni samhliða því að styðja við uppbyggingu félagslegra verkefna.

    Mikil áhersla hefur verið á að skoða tjón með rafrænum hætti þar sem því verður við komið, enda um að ræða umhverfisvænni kost sem um leið felur í sér bætta þjónustu við viðskiptavini með hraðari og skilvirkari afgreiðslu tjóna. Á árinu 2021 voru framkvæmdar yfir 1.000 rafrænar tjónaskoðanir sem drógu verulega úr akstri tjónamatsmanna eða um allt að 18.000 ekna kílómetra. Nýjar tæknilausnir sem auka val viðskiptavina um þjónustuleiðir hjálpa okkur þannig að minnka kolefnisspor starfseminnar.

    Samvinna skilar betri þjónustuupplifun

    Á sama tíma og viðskiptavinir velja rafrænar leiðir í auknum mæli leggja samstarfsaðilar og verktakar okkar einnig sitt af mörkum í þeim efnum. Frábært samstarf hefur verið við bifreiðaverkstæði og aðra þjónustuaðila um að efla gæði þjónustunnar við tjónþola. Þar hefur aukið gegnsæi og gagnkvæmt traust reynst lykilþáttur í því hversu vel hefur til tekist. Gengið hefur vonum framar að fá alla tjónareikninga senda með rafrænum hætti sem auðveldar alla úrvinnslu, tryggir betur öryggi ganga, eykur hraða og skilvirkni.

    Markvisst er unnið úr ábendingum sem berast til að bæta upplifun viðskiptavina og mæta síbreytilegum þörfum. Þannig hafa viðbrögð og athugasemdir viðskiptavina og samvinna milli deilda leitt til ýmissa umbótaverkefna sem hafa að markmiði að bæta upplifun viðskiptavina af tjónaþjónustunni.

    Forvarnir og samfélagsmál

    Forvarnir í öndvegi

    Við vinnum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áherslur Sjóvár í forvörnum ríma við þau markmið sem við höfum valið að leggja sérstaka áherslu á, með hliðsjón af eðli starfseminnar. Þær tengjast markmiði 3 um heilsu og vellíðan en þar undir hafa m.a. verið sett markmið um helmings fækkun alvarlegra slasaðra og dauðsfalla vegna umferðarslysa fyrir árið 2030. Áherslur tengjast einnig markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu en það snýst um að draga verulega úr sóun með forvörnum, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingu.

    Forvarnir ná til allra þátta hins daglega lífs og um árabil hefur verið lögð mikil áhersla á að vinna með viðskiptavinum að forvörnum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Til mikils er að vinna þar sem það er hagur allra að fækka tjónum og slysum. Náið samstarf hefur verið við fyrirtæki í forvarnamálum og höfum við einnig leitað nýrra leiða til að ná til einstaklinga. Til viðbótar við þetta er mikil áhersla lögð á virka forvarnahugsun innan Sjóvár og haldin var sérstök forvarnavika fyrir starfsfólk félagsins á árinu. Forvarnastarfið hefur líkt og annað ekki farið varhluta af yfirstandandi heimsfaraldri þar sem nýta hefur þurft nýjar og fjölbreyttar leiðir í fræðslu og upplýsingagjöf.

    Fræðsla og samstarf með fyrirtækjum

    Lykillinn að árangursríku forvarnarstarfi er gott samstarf og miðlun upplýsinga. Með það að leiðarljósi voru haldnir ýmsir morgunfundir fyrir fyrirtæki í viðskiptum á árinu 2021. Við nýttum okkur rafrænar lausnir til að halda fundina þegar aðstæður buðu ekki upp á annað, enda skiptir miklu máli að halda samtalinu um forvarnir stöðugt virku. Með þessum hætti gátu líka enn fleiri sótt fundina, sama hvar á landinu þeir voru staddir.

    Í apríl var haldinn rafrænn fundur fyrir aðila ferðaþjónustunnar um stöðu og horfur í ferðaþjónustu og var sjónum beint að ferðasumrinu 2021 og öryggismálum. Sagt var frá SafeTravel appinu sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Sjóvá og Stokkur unnu þá að hörðum höndum en appið var gefið út síðar á árinu. Farið var yfir forvarnir á farsóttartímum og hverju þarf að huga að í samhengi við viðhald og öryggismál þegar starfsemi fyrirtækja liggur niðri.

    Haldinn var morgunfundur um öryggismenningu fyrirtækja í höfuðstöðvum Sjóvár í október. Fundinum var streymt á Facebook þar sem hægt er að nálgast upptökuna. Farið var yfir hvað hefur reynst vel í forvörnum fyrirtækja og einnig hvernig efla má öryggismenningu þeirra. Einnig voru helstu áhættur í starfsumhverfi fyrirtækja ræddar og fulltrúar frá Landsneti, Samskip og Kynnisferðum voru gestir í pallborði.

    Sjóvá hélt einnig utan um framkvæmd á ársfundi Eldvarnarbandalagsins sem haldinn var á Teams, en bandalagið hefur verið starfrækt í 10 ár og hefur þetta samstarf fyrir löngu sannað mikilvægi sitt fyrir forvarnir og fræðslu tengda eldvörnum.

    Stöðugt er unnið að því að greina áhættur ólíkra fyrirtækja, taka saman tölfræði um óhöpp og slys og fara yfir það með viðskiptavinum okkar hvernig má koma í veg fyrir þau. Reglulega er farið í heimsóknir til fyrirtækja í viðskiptum og forvarnir ræddar í því samhengi. Sem dæmi má nefna að við heimsóttum rútufyrirtæki og könnuðum ástand dekkja hjá þeim, sem mæltist vel fyrir. Við héldum einnig áfram með átak okkar í áhættuskoðunum fyrirtækja. Hugarfarsbreyting hefur átt sér stað á undanförnum árum hjá fyrirtækjum þegar kemur að forvörnum og sýnir starfsfólk þeirra mikinn vilja til að gera stöðugt betur í þeim efnum.

    Samtal um tryggingar og forvarnir

    Nýtt hlaðvarp, Sjóvá spjallið, hóf göngu sína á árinu. Tryggingar geta virst flóknar við fyrstu sýn og því er lykilatriði að tala um þær á mannamáli. Sjóvá spjallið er hlaðvarp þar sem rætt er um tryggingar og forvarnir þannig að fólk geti verið betur upplýst um hvaða tryggingar henta þeirra þörfum. Einnig er rætt við samstarfsaðila okkar og snert á áhugaverðum málaflokkum er tengjast starfseminni. Við viljum vera í góðum tengslum við fólkið í landinu ásamt því að koma mikilvægri fræðslu á framfæri. Sjóvá spjallið er ein leið til þess. Á árinu voru einnig reglulega birtar greinar á Vísi um ýmis forvarna- og tryggingamál. Þær eru liður í þessu samtali sem við viljum eiga við almenning auk þess að fræða fólk um hvernig má koma í veg fyrir slys og óhöpp.

    Samstarf og samfélagsábyrgð

    Saman áorkum við meiru og því höfum við alla tíð lagt áherslu á að eiga í góðu samstarfi við lykilaðila til að stuðla að öflugum forvörnum í samfélaginu. Sjóvá veitir auk þess árlega styrki til fjölmargra aðila sem vinna að ýmsum góðum málefnum í þágu samfélagsins og er lögð áhersla á að fjármunir sem fara til styrktarmála styðji við hlutverk og stefnu okkar og þau heimsmarkmið sem við vinnum að. Eðli málsins samkvæmt styrkjum við því fyrst og fremst verkefni sem hafa ríkt forvarnargildi, hvort sem það eru slysa-, óhappa- eða heilsutengdar forvarnir. Sjóvá er þannig til dæmis aðili að Ólympíufjölskyldu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, styður starf Íþróttasambands fatlaðra, ásamt því að styðja við hvers kyns barna- og unglingastarf íþróttafélaga um land allt. Þannig viljum við taka þátt í að byggja upp heilbrigt og öruggt samfélag í góðu samstarfi við lykilaðila, um allt land.

    Slysavarnarfélagið Landsbjörg

    Sjóvá hefur átt farsælt samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörgu um áratuga skeið og er aðalstyrktaraðili samtakanna. Samstarfssamningur var endurnýjaður á árinu og verður Sjóvá þannig áfram einn af aðalstyrktaraðilum Landsbjargar næstu fimm árin. Sjóvá tryggir einnig áfram eignir og búnað björgunarsveita um land allt og sér til þess að liðsmenn þeirra séu ávallt vel tryggðir í þeim krefjandi aðstæðum sem þeir starfa oft við.

    Undir samstarfssamninginn falla ýmis forvarnartengd verkefni, meðal annars að gefa öllum börnum á landinu flugeldagleraugu í kringum áramótin og verkefni sem snúa að forvörnum í umferðinni s.s. á SafeTravel deginum. Sjóvá og Landsbjörg hafa að auki um árabil unnið saman að mörgum stórum forvarnartengdum verkefnum til viðbótar við samninginn og var árið 2021 sérstaklega gjöfult í þeim efnum.

    SafeTravel appið eykur öryggi á vegum landsins

    Við höfum um nokkurt skeið unnið að gerð apps sem hefur að markmiði að auka öryggi á vegum landsins, enda hefur lengi verið þörf á að geta með auðveldum hætti fylgst með ástandi vega á Íslandi í rauntíma. SafeTravel appið var kynnt formlega í septembermánuði 2021. Appið er afurð trausts samstarfs Landsbjargar undir merkjum SafeTravel, Sjóvá og Stokks hugbúnaðarhúss, en Sjóvá stóð undir kostnaði við þróun þess. Í SafeTravel appinu er hægt að nálgast upplýsingar um færð og ástand vega hverju sinni, á ensku og íslensku, og er því þannig ætlað að einfalda ákvarðanatöku við akstur á Íslandi. Sambærilegt app hefur ekki verið til fram að þessu en appið er í stöðugri þróun og er von er á fleiri viðbótum til að bæta það enn frekar.

    Styrkur til smíði nýrra björgunarskipa Landsbjargar

    Í lok árs afhenti Sjóvá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu 142,5 milljóna króna styrk til smíða á þremur nýjum björgunarskipum samtakanna. Landsbjörg hefur um hríð vakið athygli á mikilvægi þess að björgunarskip samtakanna verði endurnýjuð enda eru skipin sem nú eru í notkun komin til ára sinna. Landsbjörg hafði þegar tryggt sér allt að helmings fjármögnun fyrstu þriggja skipanna en með styrknum frá Sjóvá gat smíði þeirra hafist, en hvert skip kostar 285 milljónir króna. Smíði fyrsta skipsins er hafin í Finnlandi og er afhending þess áætluð á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum sumarið 2022, en þar verður heimahöfn skipsins. Hin tvö skipin verða afhent 2022 og 2023.

    Það er okkur hjá Sjóvá mikil ánægja að geta stutt við þetta brýna verkefni en með tilkomu nýju björgunarskipanna verður bylting í viðbragðstíma og aðbúnaði fyrir áhafnir og skjólstæðinga. Skipin skipta þannig miklu máli fyrir öryggi sjófarenda og samfélagið allt. Markmið Landsbjargar er síðan að endurnýja öll þrettán björgunarskip sín með tíð og tíma.

    Miðstöð slysavarna barna

    Sjóvá hefur um árabil styrkt Miðstöð slysavarna barna eða allt frá því að grunnur var lagður að starfseminni með stofnun Sjóvá Forvarnarhúss árið 2006. Miðstöðin býður ókeypis námskeið fyrir foreldra um slysavarnir barna og öryggi barna í bílum en leiðbeinandi er Herdís L. Storgaard, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður miðstöðvarinnar. Flest slys á börnum verða í heimahúsum og því sannarlega mikilvægt að huga vel að forvörnum á heimilinu. Við héldum þessu góða samstarfi áfram á árinu 2021, heimsóttum miðstöðina og létum uppfæra gátlista fyrir foreldra og aðra uppalendur um öryggi barna á heimilinu. Gátlistinn var endurprentaður auk þess sem nú er hægt að nálgast hann á netinu bæði á msb.is og sjova.is.

    Börn í innkaupakerrum

    Ráðstefnan Slysavarnir 2021 var haldin í október en það er Slysavarnafélagið Landsbjörg sem heldur ráðstefnuna annað hvert ár. Til hennar er kallað fagfólk úr ýmsum stéttum sem vinnur að slysavörnum og öryggismálum á Íslandi. Samhliða ráðstefnunni var sýningarsvæði þar sem annars vegar voru fyrirtæki að kynna vörur og þjónustu og hins vegar veggspjaldasýning með ýmsum gagnlegum upplýsingum. Sjóvá tók þátt í sýningunni með mikilvæg forvarnaskilaboð og stóð einnig fyrir málstofu um Börn í innkaupakerrum. Þar kynnti Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu í atferlisgreiningu, ásamt Hrefnu Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá, samstarfsverkefni Sjóvár og Rannsóknarstofu í atferlisgreiningu um forvarnir í þessu samhengi.

    Zuilma Gabriela hefur um árabil rannsakað atferli foreldra með tilliti til öryggis barna í innkaupakerrum. Hún sagði frá niðurstöðum rannsókna sem vakið hafa athygli bæði hér heima og erlendis en markmið þeirra hefur verið að finna árangursríka leið til að fá umönnunaraðila til að hætta að setja börn ofan í innkaupakerrur þar sem vörur eiga að vera. Sjóvá hefur styrkt framkvæmdina um árabil, sem felur meðal annars í sér rannsóknir og uppsetningu skilta í innkaupakerrur til að minna fólk á að setja börn ekki ofan í þær.

    Forvarnir í sýndarveruleika

    Í september bauð Sjóvá upp á sýndarveruleikaupplifun í Kringlunni en upplifunin snerist um að gera sér grein fyrir hversu hratt bíll á 5, 20, 50 og 90 kílómetra hraða er í raun að ferðast, séð með augum barns á gangbraut. Þetta var gert með því að skanna þar til gerðan QR kóða á auglýsingaskilti sem staðsett var við hlið bifreiðar með snjallsíma, bakka svo frá skiltinu og þá virkjaðist sýndarveruleikinn þannig að bíll skaust út úr raunverulega bílnum á þeim hraða sem stillt var á hverju sinni. Bíllinn keyrði í raun á þann sem var með símann á þeim hraða sem valinn var. Flestir voru hissa á því hve fljótt bíllinn var í raun kominn að þeim og vakti þetta fólk til umhugsunar um hve miklu skiptir að virða hámarkshraða.

    Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ

    Í meira en þrjá áratugi hefur Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ stuðlað að lýðheilsu kvenna og samstöðu. Sjóvá hefur styrkt Kvennahlaup ÍSÍ frá upphafi hlaupsins sem var fyrst haldið árið 1990. Árið 2021 var hlaupið haldið um allt land þann 11. september, eftir að fresta þurfti því sökum heimsfaraldurs. Upphaflegt markmið hlaupsins var að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver og ein njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.

    Í takt við umhverfisvænar áherslur Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ var ákveðið að gefa ekki höfuðbuff í hlaupinu, annað árið í röð, heldur styrkja þess í stað gott málefni um þá fjárhæð sem hefði annars verið varið í buffin. Árið 2021 rann styrkurinn til haustsöfnunar Barnaheilla, Lína okkar tíma, en í henni var safnað fyrir þróunarverkefni samtakanna í Síerra Leóne sem leggur áherslu á vernd stúlkna gegn ofbeldi.

    Fjárfestingar, ávöxtun og markaðsaðstæður

    Afkoma af fjárfestingum var góð og langt umfram væntingar á árinu 2021 en allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri ávöxtun. Árið á hlutabréfamörkuðum var líflegt. Fjögur ný félög skráðu sig á markað og þátttaka almennings hélt áfram að aukast. Velta hlutabréfa jókst um tæp 80% frá fyrra ári, úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um þriðjung og flæði í hlutabréfasjóði meira en fjórfaldaðist á milli ára. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var 52,8% á árinu og voru tekjur af þeim 5.541 m.kr. Ávöxtun óskráðra hlutabréfa var 63,2% og tekjur af þeim 1.419 m.kr. Af óskráðum bréfum var afkoman mest af hlutabréfum Controlant, 750 m.kr., Ölgerðinni Egill Skallagrímsson, 295 m.kr., Hvatningu sem er eignarhaldsfélag um fjárfestingu í Bláa lóninu 145 m.kr., Kerecis 129 m.kr. og Loðnuvinnslunni 107 m.kr. Í öllum tilfellum lágu stór viðskipti ótengdra aðila til grundvallar endurmati eignanna.

    Fjárfestingatekjur Sjóvár voru 8.384 m.kr. á árinu en voru 5.274 m.kr. árið áður sem þó var óvenju gott. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu félagsins var 18,5% á árinu.

    Seðlabanki Íslands hóf að hækka vexti í maí 2021 eftir að hafa lækkað stýrivexti á árinu á undan. Stýrivextir voru hækkaðir í fjórgang og í lok ársins höfðu þeir hækkað um 1,25 prósentustig og stóðu þá í 2,0%, sem er þó töluvert lægra en var fyrir faraldurinn. Lágir vextir höfðu leitt til hækkunar á eignaverði í landinu og þá sérstaklega fasteignaverði. Lágt vaxtastig, truflanir í aðfangakeðjum og ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar hefur leitt mikla hækkun á neysluvörum en verðbólga hefur reynst vera yfir markmiðum seðlabanka bæði hér innanlands sem og erlendis.

    Landsframleiðslan lítur út fyrir að hafa aukist um 3,9% á síðasta ári eftir að hafa dregist saman um 6,5% á árinu áður en útflutningsgreinar hafa verið að taka við sér. Stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustan, kom að miklu leyti til baka og neyslumynstur ferðamanna breyttist til hins betra meðal annars vegna lengri dvalartíma. Sjávarútvegurinn lítur einnig út fyrir að hafa skilað auknum afla og verðmætum auk þess sem flutningsiðnaður hefur gengið vel þökk sé háu heimsmarkaðsverði á sjávarflutningum. Gengi krónunnar hækkaði á árinu 2021 um 2,5% miðað við þróun gengisvísitölu en um 5,8% gagnvart evru. Verðbólga reyndist 5,1% á árinu sem er yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans og skýrist það að miklu leyti af áður nefndum þáttum en verðbólga er yfir markmiðum víða í heiminum.

    Mannauður

    Ánægt starfsfólk skilar ánægðum viðskiptavinum

    Í árslok 2021 störfuðu 192 starfsmenn hjá Sjóvá í 185 stöðugildum, vítt og breitt um landið. Ein af grundvallarforsendum framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina er helgað og ánægt starfsfólk. Í árlegri könnun Gallup, sem framkvæmd var fyrir árið 2021, mældist starfsánægja starfsfólks Sjóvár með því hæsta sem mælst hefur hjá íslenskum fyrirtækjum og í topp 10% fyrirtækja í alþjóðlegum gagnabanka Gallup sem telur tugþúsundir erlendra fyrirtækja. Sjóvá var einnig, í fjórða skiptið, eitt af fimm fyrirtækjum sem fengu nafnbótina Fyrirtæki ársins 2021 í flokki stórra fyrirtækja. Þar hækkuðu allar einkunnir félagsins töluvert á milli ára og mældumst við hæst allra fyrirtækja á lykilþættinum ánægju og stolti af vinnustað. Könnunin er ein af viðamestu vinnumarkaðskönnunum á Íslandi og veitir því góðan samanburð á fyrirtækjamenningu við önnur fyrirtæki.

    Markviss vinna í jafnréttismálum

    Hjá Sjóvá hefur um árabil verið unnið markvisst að því að tryggja jafnrétti og jöfn tækifæri innan fyrirtækisins. Á hverju ári eru skilgreindar aðgerðir byggðar á jafnréttisstefnu, með það að markmiði að stuðla að jafnri stöðu karla og kvenna. Þessar aðgerðir ná jafnt til launaákvarðana, ráðninga, stöðuveitinga og annarra tækifæra. Einnig er virkt eftirlit með þróun kjara og launa á markaði til að tryggja samkeppnishæf laun fyrir sambærilega vinnu, menntun og reynslu. Árangurinn af þessum aðgerðum er metinn reglulega með greiningum sem framkvæmdar eru af innri og ytri aðilum.

    Sjóvá var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að fá jafnlaunavottun árið 2014. Jafnlaunavottunin staðfestir að jafnlaunakerfi okkar, verklag við launaákvarðanir og eftirlit með kynbundnum launamun tryggir að starfsfólki sé ekki mismunað í launum né öðrum kjörum eftir kyni. Óútskýrður launamunur kynjanna hefur ávallt mælst lægri en 2%. Á árinu 2021 mældist óútskýrður launamunur kynjanna 1,5%.

    Í lok árs 2021 var 48% starfsfólks konur og 52% karlar og voru 40% stjórnarmanna konur og 60% karlar. Þá eru konur 75% af framkvæmdastjórn félagsins og í hópi stjórnenda eru hlutföllin einnig 48% konur og 52% karlar. Í stjórn dótturfélagsins Sjóvár Lífs eru tvær konur og einn karl.

    Sjóvá er stoltur styrktaraðili Jafnvægisvogarinnar sem er hreyfiaflsverkefni FKA, félags kvenna í atvinnulífinu, og forsætisráðuneytisins. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að vera fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Á rafrænni ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2021 hlaut Sjóvá viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, en hana hljóta þau fyrirtæki sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar.

    Öflug vinnuvernd og öryggismál

    Góð vinnuvernd, áhersla á öryggismál og opin samskipti eru mikilvægir þættir í heilbrigðri fyrirtækjamenningu. Árið 2015 varð Sjóvá meðal fyrstu fyrirtækja landsins til að framkvæma sálfélagslegt áhættumat í samræmi við lög um hollustuhætti og vinnuvernd og er þetta viðamikla mat endurtekið á tveggja ára fresti. Sálfélagslegt áhættumat tekur á mörgum þáttum í starfsumhverfi starfsfólks sem geta haft áhrif á vellíðan og öryggi starfsmanna, eins og stjórnun, álag, streita, einelti eða áreitni, og eru niðurstöður matsins nýttar til fræðslu og forvarnarstarfs í þessum málaflokki.

    Framþróun þekkingar

    Sífelldar breytingar eru í rekstrarumhverfi tryggingafélaga með breyttri samfélagsgerð, neyslumynstri og regluverki. Öflun og viðhald þekkingar er því lykilatriði. Metnaðarfull fræðsludagskrá er í boði hjá félaginu allt árið um kring og hefur vikuleg rafræn fræðsla fyrir allt starfsfólk fest sig í sessi á liðnu ári. Þar er um að ræða stutt og hnitmituð morgunerindi frá innanhús jafnt sem ytri aðilum um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Að auki sækir starfsfólk sér stöðugt viðbótarþekkingu með reglulegum námskeiðum og ráðstefnum. Ánægjuleg þróun hefur orðið á árinu í framboði af námskeiðum, ráðstefnum og viðburðum á netinu bæði innanlands sem og erlendis sem hefur nýst starfsfólki vel til endurmenntunar.

    Hið nýja starfsumhverfi

    Sjóvá hefur lengi verið jákvætt gagnvart fjarvinnu starfsfólks og starfsfólk nýtt sér það vegna tímabundinna aðstæðna eða verkefna. Á árinu starfaði meirihluti starfsfólks í fjarvinnu einhvern hluta ársins og gekk samstarf og þjónusta við viðskiptavini framar björtustu vonum með rafrænum lausnum og samskiptaleiðum, enda margir sem vilja nýta sér þær í meira mæli en áður. Starfsandi og starfsánægja blómstraði og fundu félagsleg og vinnutengd samskipti samstarfsfélaga sér nýjan farveg með rafrænum lausnum og viðburðum.

    Breytingar á lögum

    Á liðnu ári var lítið um breytingar á löggjöf landsins um vátryggingastarfsemi. Í maí 2021 voru samþykkt lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta og falla vátryggingatengdar afurðir þar undir. Markmið laganna er að gera almennum fjárfestum kleift að skilja og bera saman helstu eiginleika pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða og meðfylgjandi áhættu.

    Þann 1. maí 2021 tóku gildi lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu nr. 20/2021. Markmiðið með lögfestingunni er að samræma kröfur um skyldu útgefenda til að veita upplýsingar og stuðla með því að raunverulegum innri markaði og víðtækri vernd fyrir fjárfesta. Þá tóku gildi 1. september 2021 lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021 þar sem innleidd var tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar ESB um markaðssvik. Voru í framhaldinu gerðar breytingar á verklagsreglum Sjóvár þar sem reglur um viðskipti aðila á innherjalista og meðferð innherjaupplýsinga komu í stað reglna um viðskipti innherja og meðferð innherjaupplýsinga. Báðar lagasetningarnar varða Sjóvá sem útgefenda skráðra verðbréfa á markaði og er þar um að ræða innleiðingu íslenskra stjórnvalda á samræmdu regluverki á Evrópska efnahagssvæðinu.

    Þann 17. desember 2021 voru undirritaðar nýjar samþykktir úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nýju samþykktirnar tóku gildi þann 1. janúar 2022. Tilefni endurskoðunar samþykktanna var að samræma þær að fullu lögum um úrskurðaraðila neytendamála nr. 81/2019. Frá og með sl. áramótum er nefndin ekki lengur vistuð hjá Seðlabanka Íslands heldur verður hún sjálfstæð úrskurðarnefnd, óháð stjórnvöldum, sem Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja standa að. Breytingar á samþykktum fela m.a. í sér auknar heimildir viðskiptavina til að bera ágreining um fjárhæðir undir nefndina, sem mun fyrirsjáanlega fjölga ágreiningsmálum fyrir nefndinni.

    Þú ert hér:

    1. Íslenska
    2. Um okkur
    3. Fjárfestar
    4. Ársskýrsla 2021
    5. Rekstur og þjónusta
    Sjóvá
    • Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kt. 650909-1270
    • Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. Kt. 680568-2789
    • Kringlunni 5, 103 Reykjavík
    Hafðu samband
    Þjónustusími
    440 2000
    Tjónavakt
    440 2424
    Netfang
    sjova@sjova.is
    Vegaaðstoð
    440 2222
    Lagalegur fyrirvari
    Opnunartímar
    Kringlan
    Mán - Fim 9:00 - 16:00
    Fös 9:00 – 15:00
    Útibú
    Alla virka daga 11:00 – 15:00
    • Vottanir Sjóvá
    Hafðu samband Smelltu hér
    Þjónustusími
    440 2000
    94734A73-7B6C-480E-BF65-F0BF47918314Created with sketchtool.
    Netspjall
    Skilaboð
    Ábending
    Smelltu hér
    Vinsælar leitir
    Viðurkennd verkstæði Heimilistrygging Tilkynna tjón English

    Fá tilboð í tryggingar

    Engin skuldbinding

    Tilkynna tjón

    Fljótlegt og einfalt

    Hafðu samband

    Kringlunni 5 - 103 Reykjavík
    Opnunartími útibúa 9:00 - 16:00

    Þjónustusími: 440 2000

    Tjónavakt: 440 2424

    Vegaaðstoð: 440 2222

    Netfang: sjova@sjova.is
    Fax: 440 2020

    Gagnvirkar leiðir til að hafa samband
    Opna netspjall Ábendingar, kvartanir & hrós
    Mitt Sjóvá

    Á Mínu Sjóvá getur þú skoðað yfirlit yfir tryggingarnar þínar, tilkynnt tjón og margt fleira

    Opna Mitt Sjóvá
    • Facebook
    • Linkedin
    • Instagram

    Hvort viltu einstaklings- eða fyrirtækjatryggingar?



    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Óska eftir tilboði

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki eða að stofna aðgang að Mínu Sjóvá.
    Ertu nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa

    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Hefja tilboðsferli

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki
    Ekki með rafræn skilríki eða nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa