Ábyrgðartrygging fyrir atvinnurekstur

Það er mikilvægt fyrir þá sem eru í atvinnurekstri að tryggja sig fyrir skaðabótakröfum sem geta beinst að þeim frá þriðja aðila vegna starfseminnar.

Hvað er ábyrgðartrygging fyrir atvinnurekstur?

Ábyrgðartryggingu er ætlað að mæta skaðabótakröfum sem geta fallið á þig, sem atvinnurekanda eða fyrirtækið þitt, ef aðrir verða fyrir tjóni vegna starfseminnar. Þetta geta bæði verið tjón á eignum og líkamstjón og er oft um háar fjárhæðir að tefla. Tryggingin er gjarnan nefnd frjáls ábyrgðartrygging þar sem ekki er skylt að kaupa hana samkvæmt lögum.

Bótasvið frjálsrar ábyrgðartryggingar

Frjáls ábyrgðartrygging nær til skaðabótaábyrgðar utan samninga.

Dæmi: Húseigandi gerir samning við smið um rúðuskipti. Ef smiðurinn missir hamar ofan af vinnupallinum á bíl húseigendans og skemmir hann, tekur ábyrgðartrygging smiðsins til þess tjóns.

Ef smiðurinn gerir mistök við ísetninguna og brýtur rúðuna þarf hann sjálfur að bæta húseigandanum hana. Rúðuísetningin sjálf er þannig hluti af samningi hans við húseigandann og nær tryggingin ekki til þess tjóns.

- Ákveðnar atvinnugreinar geta keypt sérstaka viðauka við trygginguna sem ná til skaðabótaábyrgðar innan samninga (vörsluábyrgð). Þetta á t.d. við um bifreiða- og vélaverkstæði.

Skaðsemisábyrgð

Tryggingin nær til skaðabótaábyrgðar sem fellur á fyrirtæki þitt vegna líkamstjóns eða skemmda á munum af völdum hættulegra eiginleika söluvöru og þjónustu fyrirtækisins.

Tjón sem verða erlendis eru ekki innifalin í tryggingunni nema um það sé samið sérstaklega.

Tengdar tryggingar

Ábyrgðartryggingin er ein af grundvallartryggingum atvinnurekstrar. Til annarra mikilvægra trygginga má telja lögboðna brunatryggingu fasteignar, húseigendatryggingu, rekstrarstöðvunartryggingu og samningsbundna slysatryggingu launþega.

Ökutækjatrygging

Lögboðin ökutækjatrygging innifelur annars vegar ábyrgðartryggingu eiganda og hins vegar slysatryggingu ökumanns og eiganda.

Brunatrygging húseigna

Lögboðin brunatrygging bætir tjón á húseign vegna eldsvoða, eldingar, sprengingar, sótfalls úr kynditækjum eða eldstæðum, af völdum loftfars og tjón vegna slökkvi- og björgunaraðgerða.

Húseigendatrygging

Húseigendatrygging er samsett trygging úr 8 þáttum og tekur til helstu tjóna sem geta orðið á húseigninni annarra en brunatjóna.

SJ-WSEXTERNAL-2