Reiðhjól

Gilda umferðareglur líka um hjólandi?

Já, reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki og því gilda sömu lög og reglur um akstur reiðhjóla og bíla. Margir kjósa að hjóla á umferðargötum ekki bara á stígum. Það segir sig sjálft að ef ekki er farið eftir umferðarreglum þá eykur það líkur á slysi eða tjóni sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hjólreiðafólk. Hjólreiðamaður sem sýnir af sér stórkostlegt gáleysi í umferðinni getur skapað sér skaðabótaábyrgð ef hann veldur umferðarslysi.

Við berum sjálf ábyrgð á því að fara eftir umferðarreglum og hegða okkur á ábyrgan hátt í umferðinni, óháð samgöngumáta. Þannig skapast tillitssemi og skilningur í umferðinni sem er nauðsynlegur til þess að lágmarka tjón og slys.

Hvenær og hvar er hjólum stolið?

Flestum reiðhjólum er stolið utandyra eða í innbrotum. Okkur finnst við vera örugg heima hjá okkur og því læsum við oft ekki hjólinu heimavið við fastan hlut s.s. hjólreiðagrind eða staur. Það eru líka dæmi um að reiðhjólum hafi verið stolið úr hjólageymslu fjölbýlis og eftir að brotist var inn í bíl. 

Reiðhjólum er stolið allt árið um kring en þeim fjölgar ár vorin og fram á haust, samhliða því að fleiri reiðhjól eru í notkun en aðra mánuði ársins. Þetta minnir okkur á að læsa alltaf hjólinu við fasta hlut og helst að geyma þau inni yfir nóttina.

Hvað er til ráða

Læsum hjólunum við fastan hlut.  Margar verslanir og fyrirtæki hafa sett upp hjólastanda utandyra til þess að mæta þörfum hjólandi. Það er því langöruggast að skilja hjólin þannig eftir að þau séu læst við fastan hlut.

Flest reiðhjólaslys verða yfir sumarmánuðina enda flestir sem hjóla þá. Sem fyrr þá eru höfuðáverkar alvarlegustu áverkarnir og því hvetjum við alla, eldri sem yngri að nota alltaf hjálm á hjóli. Flest reiðhjólaslys verða með þeim hætti að við hreinlega missum jafnvægið á hjólinu t.d. ef ekið er í holu, ójöfnu á kant eða eftir árekstur við ökutæki. Við þetta skemmast oft reiðhjól t.d., reiðhjólagrindin, dekkin eða stýrið. Eftir harkalegt fall getur því verið gott að láta yfirfara hjólið til að tryggja að virki rétt og hjólið sé öruggt.

Sjáumst

Það skiptir ekki máli hvort það er sumar eða vetur, við verðum að sjást vel á reiðhjóli. Skærlitaður fatnaður, ljós og endurskin bæði á hjóli og hjólreiðamanni auka á sýnileika og öryggi.

Hvernig á að læsa hjólinu

  1. Ekki spara í kaupum á reiðhjólalási ef þú hefur efni á því. Best er að kaupa U laga lás eða keðjulás.  Það er erfiðara að ná þeim í sundur.
  2. Lásinn á alltaf að fara í gegnum reiðhjólagrindina (stellið) og þaðan í reiðhjólastandinn.
  3. Lásar sem eru með dekkjalási læsa bæði reiðhjólagrindinni og dekkinu við standinn eru góðir.
  4. Ekki er mælt með að eingöngu dekkinu sé læst við reiðhjólastandinn því auðvelt er að losa dekkið og þá er hjólið sjálft óvarið.
  5. Læsum alltaf hjólinu, líka þegar við skiljum það eftir í nokkrar mínútur.

 

Hvernig er best að læsa hjólinu

Myndband frá Kryptonitelock.com.

SJ-WSEXTERNAL-2