Nágrannavarsla

Með því að taka höndum saman og vera vakandi fyrir nærumhverfi sínu má auka öryggi íbúa og öðlast þannig meiri hugarró.

Hvernig setur maður upp nágrannavörslu?

Það er ýmislegt hægt að gera til að minnka líkur á innbrotum og hefur nágrannavarsla sýnt sig sem góð forvörn í þeim efnum. Í henni felst að íbúar og nágrannar taka sig saman til þess að sporna við inn­brotum og eigna­tjóni í sinni götu eða fjöl­býli. Mörg sveitarfélög vinna markvisst að því að setja upp nágranna­vörslu með aðstoð íbúa enda hefur reynslan verið góð og nágranna­varsla skilað árangri. Einnig er hægt að leita til okkar varðandi ráðgjöf ef setja á slíka vörslu upp.

Þegar áhugi kviknar um upptöku nágrannavörslu þá þarf að huga að ýmsu. Til einföldunar þá höfum við sett ferlið upp í sex skrefum:

  1. Gott er að byrja á því að skoða handbókina okkar um nágrannavörslu, þar koma fram allar helstu upplýsingar.
  2. Kannaðu áhuga meðal nágranna.
  3. Athugaðu hvort það gildi einhverjar reglur um nágrannavörslu í sveitarfélaginu. 
  4. Halda kynningarfund um nágrannavörslu fyrir fólkið í hverfinu.
  5. Í handbókinni er að finna ýmsa gátlista sem gott er að fara yfir til að gera heimilið sem öruggast og varna innbrotum.
  6. Pantaðu nágrannavörsluskilti og límmiða og settu upp í götunni þinni. Kanna þarf hvort að sveitarfélagið útvegar skilti annars er hægt að nálgast þau hjá okkur.

Í handbók Sjóvá um nágrannavörslu má finna allar upp­lýs­ingar um hvernig á að setja upp nágrannavörslu skref fyrir skref. Þar er einnig að finna gátlista sem hjálpa þér að gera heim­ilið þitt örugg­ara ásamt ítarefni um hvernig best er að sporna gegn innbrotum. Við hvetjum fólk eindregið til að kynna sér handbókina vel og fara yfir gátlistana.

Hvað á að gera ef brotist er inn hjá mér?

Miklu máli skiptir að bregðast rétt við. Gættu að því að innbrotsþjófurinn gæti ennþá verið á vettvangi og því verður þú fyrst og fremst að huga að öryggi þínu. Sýndu því skynsemi og ekki fara inn í húsið ef þú telur að einhver sé inn í því. Hringdu strax á lögregluna í 112 og tilkynntu innbrotið.

Ef þú kemur heim og sérð að brotist hefur verið inn í húsið þitt þá skiptir máli að þú snertir ekki við neinu þar til lögreglan kemur. Ef ókunnugur bíll er fyrir utan, taktu þá niður bílnúmerið t.d. með því að taka mynd af bílnum.

Hvað á að gera ef brotist er inn og ég heima?

Það eru eðlileg viðbrögð að vilja reka viðkomandi strax út. En vertu varkár, þú veist ekki í hvaða ástandi þjófurinn er eða hvað þeir eru margir. Hringdu í neyðarlínuna 112 og óskaðu eftir aðstoð t.d. með því að segja að það sé yfirstandandi innbrot.

Hvernig geri ég heimilið öruggara?

Öll viljum við lágmarka líkurnar á því að brotist verði inn heima hjá okkur. Þess vegna skiptir miklu máli að allir á heimilinu gæti þess að læsa hurðum og lokum gluggum þegar farið er að heiman, hvort sem við erum að fara í vinnuna eða í burtu yfir helgi. Ekki er ráðlagt að geyma lykla undir mottunni eða í blómapotti við anddyri, það er frekar augljós staður.

Gott er að vera með öryggiskerfi

Enginn vafi er á því að öryggiskerfi sporna gegn innbrotum. Öryggiskerfið eitt og sér kemur þó aldrei í veg fyrir innbrot en í þeim fellst mikill fælingarmáttur og þau virkja utanaðkomandi aðstoð. Settu límmiða sem þú færð með öryggiskerfinu á áberandi staði.

 

Hvers virði er innbúið þitt?

Þegar þú kaupir þér tryggingu þá er áætlað verðmæti innbúsins skráð í tryggingaskírteinið þitt. Það skiptir máli að fara reglulega yfir innbúið og hækka eða lækka þessa upphæð.

Þetta getur þú gert:

  • Listaðu upp innbúið
  • Taktu myndir af listaverkum og verðmætum hlutum og geymdu annarsstaðar en heima
  • Skartgripi og aðra verðmæta hluti skal geyma í öryggisskáp
  • Vertu viss um að tryggingin þín nái yfir raunverulegt verðmæti innbúsins

Þú getur reiknað áætlað innbúsverðmæti á sjova.is

SJ-WSEXTERNAL-3