Sumarhús

Sumarhúsið er griðastaður fjölskyldunnar. Þangað förum við til að eiga ánægjulegar samverustundir og sumarhúsin eru uppspretta góðra minninga. Notkun sumarhúsa og útbúnaður þeirra hefur breyst mikið undanfarin ár og því þarf að huga að tryggingum og öryggismálum sumarhúsa með öðrum hætti en áður.

Fyrstu viðbrögð við vatnstjóni

Fyrstu viðbrögð við tjóni

Þú getur náð í okkur allan sólarhringinn ef þú lendir í tjóni. Stundum þarf að bregðast hratt við um miðja nótt og þá gerum við það. Utan opnunartíma nærðu í okkur í síma 800-7112.

Vatn

Flest tjón í sumarhúsum eru vegna vatnsleka. Vatnstjón geta verið mjög kostnaðarsöm og því skiptir máli að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Oftar en ekki eru það tengingar vatnslagna sem gefa sig. Ráðlegt er að koma fyrir vatnsskynjara við uppþvotta- og þvottavélar. Tengingar undir vöskum verða gjarnan fyrir hnjaski, þar er algengt að leki komi að vatnslás eða tengingum neysluvatns. Aðgengi að tengikrönum undir vöskum og við þvottavélar þarf að vera gott og óhindrað. Á baðherbergi þarf að vera niðurfall og nauðsynlegt er að hreinsa ló og önnur óhreinindi úr því reglulega.

Heitt vatn

Sífellt algengara er að sumarhús séu tengd hitaveitu. Heitavatnsleki er iðulega mun skaðlegri en leki á köldu vatni, virkasta forvörnin er að loka ávallt fyrir neysluvatnsaðstreymi þegar húsin eru yfirgefin. Ástæðan er sú að það kemur í veg fyrir að vatn flæði óhindrað í mannlausu húsi, jafnvel þótt bilun eða frost nái að valda skemmdum á lagnakerfinu. Öflugasta vörnin gegn vatnsleka í miðstöðvarkerfi sumarhússins er að notað sé lokað hringrásarkerfi með millihitara og að frostlögur sé á kerfinu. Í slíku kerfi fer heita vatnið ekki beint inn á ofnakerfið heldur knýr dæla hringrásina um varmaskipti þar sem vatnið er hitað áður en það fer inn á ofnana. Frostlögur tryggir að ekki frýs á kerfinu og minni hætta er á að lagnir gefi sig.

Frágangur inntaksgrindar

Reynsla Sjóvár er að best sé að inntaksgrind sé í vel einangruðum skáp utandyra og að vatn eigi greiða leið frá húsinu komi til leka. Nauðsynlegt er að merkja vel inntakskrana fyrir heitt og kalt vatn. Best er að koma fyrir þrívega loka í einangruðum brunni á frostfríu dýpi 0,8 til 1.2 m. Þannig er öruggast að tæma lagnakerfið þegar húsið er yfirgefið. Enginn vafi er á því að réttur frágangur fagmanna frá upphafi, góð umgengni og viðhald eru lykilatriði þegar koma á í veg fyrir vatnstjón.


Er enginn að nota bústaðinn

Ef bústaðurinn er ekki í mikilli notkun yfir vetrartímann þá skiptir máli að skoða aðstæður í bústaðnum eftir mikla frostakafla, þegar vatn nær að frjósa í lögnum, verða svokallaðar frostsprungur á þeim vegna þennslu. Með góðu eftirliti má koma í veg fyrir stórt vatnstjón þótt lagnir hafi sprungið, því vatnið fer ekki að flæða fyrr en frostakafla er lokið og hitastig fer aftur yfir frostmark. Hið sama á við ef rafmagn eða hitaveita hefur farið af, við slíkar aðstæður getur auðveldlega frosið í lögnum.

Ertu á heimleið

Þegar sumarhús er yfirgefið þá þarf að loka fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins og tappa af vatnslögnum og salerni, ef ekki er sérstakt tæmingarlok. Gott er þó að hafa hita á ofnakerfi sumarhússins sé það til staðar. Það getur komið í veg fyrir að lagnir frostspringi með tilheyrandi tjóni og óþægindum.

Mælt er með því að fá fagaðila til þess að kanna reglulega ástand á öllu lagnakerfi. Það minnkar líkur á tjóni ásamt því að rétt stillt kerfi lækkar hitunarkostnað. Gott er að gera gátlista yfir það sem þarf að gera þegar bústaðurinn er yfirgefinn, sérstaklega þegar fleiri en einn aðili er að nota hann.

Hvað getur bent til vatnsleka?
  • Málning sem er á veggjum bólgnar eða aðrar útlitsbreytingar verða á veggfletinum
  • Gólf er bólgið/sigið eða sýnilegar skemmdir komnar fram getur verið merki um að vatn leki frá lögnum
  • Fúkkalykt eða önnur ólykt getur gefið til kynna vatnsleka eða rakamyndun
  • Ofnar virka ekki eins og þeir gera venjulega eða ryð og kalkútfellingar á samskeytum
Það er þrennt sem skiptir máli
  1. Kynntu þér vel hvar á að skrúfa fyrir heitt og kalt vatn
  2. Merktu kranana með aðstoð fagmanns
  3. Færðu dót frá til að tryggja aðgengi

Svo er bara að sýna fjölskyldumeðlimum hversu vel kranarnir eru merktir og hvar þeir eru þannig að allir viti hvar á að skrúfa fyrir.

Merkingar á krana

Brunavarnir

Reykskynjarar

Reykskynjarar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og nokkur atriði er gott að hafa í huga varðandi þá. Mælt er með að virkni þeirra sé könnuð þegar komið er í bústaðinn, sérstaklega ef langur tími líður á milli þess að sumarhúsið er notað. Árlega þarf að skipta um rafhlöður, t.d. í maí. Þegar skipt er um rafhlöðu er gott að nota tækifærið og ryksuga skynjarann til að fjarlægja ryk. Reykskynjarinn sjálfur hefur 10 ára endingartíma. Gott ráð er að skrifa kaupdaginn á límmiða og setja aftan á skynjarann þegar hann er settur upp.

Staðsetning reykskynjara

Best er að setja reykskynjarann sem næst miðju lofts og ekki upp í kverk eða hæsta punkt ef loftið er V-laga. Miðaðu við að hann sé a.m.k. 30 sm frá vegg. Ef um svefnloft er að ræða þá þurfa þeir sem þar gista að heyra í reykskynjaranum ef hann gefur boð frá sér.

Staðsetning Viðhald og prófun
Slökkvitæki

Í öllum sumarhúsum, rétt eins og á heimilum, ætti að vera tiltækt eldvarnateppi ásamt duft- og léttvatnsslökkvitækjum. Látið fagaðila yfirfara duftslökkvitæki á 2-3 ára fresti en léttvatnstæki á 5 ára fresti.

Komast allir út

Þar sem svefnloft er þarf að vera öruggt að allir komist út af efri hæð hússins ef upp kemur eldur. Til eru ýmsar gerðir af stigum bæði keðjustigar og svo kaðlastigar. Mestu máli skiptir að allir viti hvar neyðarútgangar eru og kunni að nota búnaðinn. Æfum okkur, það er bæði fróðlegt og gaman.

Gas

Allsstaðar þar sem gas er innandyra þurfa að vera gasskynjarar. Staðsetning gasskynjara á að vera sem næst gólfi t.d. á sökkul innréttinga. Líkt og með reykskynjara þá er endingartími gasskynjara takmarkaður og mælt er með að skipta um skynjara á 5 ára fresti. Gott er að leita álits hjá fagaðila varðandi staðsetningu skynjara.

Innbrot

Þegar brotist er inn í sumarhús er oftar en ekki meira skemmt en stolið. Þjófar leita að auðseljanlegum hlutum, s.s. tölvum og sjónvarpstækjum. Því skiptir miklu máli hvar við geymum verðmæti í bústaðnum og að þau séu ekki sýnileg utan frá, ef hægt er að koma því við.

Er hliðið lokað

Margir sumarhúsaeigendur hafa sett upp girðingar og aðgangsstýrð hlið til að hindra aðgengi. Það hefur mikinn fælingarmátt að ekki sé hægt að komast óhindrað að sumarhúsi og getur reynst góð þjófavörn. Öryggiskerfi sem tengjast farsíma eða tölvu hafa einnig reynst vel. Í dag er hægt að fá kerfi sem eru t.d. með skynjara fyrir vatn, bruna, innbrot, hreyfiskynjara, hurðaskynjara og myndavél. Með slíkum kerfum er hægt að fylgjast með sumarhúsinu að heiman og auka öryggi.

Þó svo að sett sé upp öflugt öryggiskerfi ætti alltaf að fara vel yfir það helsta sem snertir öryggi hússins þegar það er yfirgefið. Þetta á ekki síst við ef fleiri en ein fjölskylda notar sumarhúsið. Gerðu gátlista um réttan og öruggan frágang sumarhússins, það er alltaf hætta á að við gleymum einhverju og líka sniðugt ef það er ekki alltaf sami aðilinn sem notar bústaðinn.

Nágrannavarsla

Öflug nágrannavarsla hefur líka sannað gildi sitt. Við hvetjum nágranna í sumarhúsabyggð til að fylgjast með húsnæði hvers annars eins og hægt er. Það skiptir máli að fylgjast með og láta vita ef eitthvað óeðlilegt er á seyði. Hér má finna einfaldar leiðbeiningar um helstu atriði nágrannavörslu.

Heiti potturinn

Það er gullin regla að skilja aldrei börn eftir eftirlitslaus í pottinum. Börn ættu alltaf að vera með armkúta í pottinum, líka þegar við fullorðna fólkið erum með þeim. Það er ágætt að eiga auka sett af armkútum í bústaðnum fyrir yngri og ósynda gesti.

Hvernig er útsýnið

Pottar sem grafnir í jörðu eða ofan í pallinn eiga að vera með barm sem er hærri en potturinn. Ástæðan er sú að ávallt er meiri hætta á að börn detti ofan í pottinn þegar hann er á jafnsléttu heldur en ef þarf að klifra upp í hann. Yfir veturinn verður oft mjög hált í kringum heita potta og því er gott að fara farlega og helst ekki hlaupa þó það sé freistandi í kuldanum.

Er potturinn orðinn heitur

Í dag er hitastýring á flestum heitum pottum. Engu að síður er heita vatnið hér á landi þannig að betra er að vera alveg viss um að vatnið sé ekki of heitt áður en við skellum okkur ofaní. Mælum hitann og leyfum börnum aldrei að fara einum ofaní á undan okkur.

Er lokið fast við vegg

Mikið öryggi felst í því að festa lokið af pottinum við vegg þegar við erum í pottinum. Mjög lítinn vind þarf til þess að lokið geti færst til og fokið ofan á þá sem eru í pottinum. Því er það góð regla að festa alltaf lokið vel t.d. við skjólvegg við pottinn. Ef ekki er hægt að koma festingu á vegg þá er mælt með að lokið sé dregið alveg til hliðar þannig að ekki sé hætta á að það fjúki.

Lokum pottinum

Þegar potturinn er ekki í notkun þá á að loka honum og helst læsa. Það er ávallt hætta á því að börn geti farið óséð í pottinn. Það er líka gott að hafa í huga að ung börn geta drukknað í grunnu vatni sem getur safnast saman í opinn pott.

Gardínur

Rimla- og rúllugardínur eru í mörgum sumarhúsum. Snúrurnar sem hanga niður úr þeim virka saklausar en því miður hafa orðið alvarleg slys vegna þeirra. Dæmi eru um að börn flæki sig í lykkjum eða setji snúrurnar um hálsinn og fari svo niður úr gluggakistu eða af stól með snúruna um hálsinn. Þetta er mjög einfalt að koma í veg fyrir með því að festa gardínusnúrur eða keðjur við gluggakarma með sérstökum festingum sem ýmist fylgja gardínunum eða hægt er að kaupa. Svo er einfaldlega hægt að setja upp plasthanka og vefja snúrurnar upp á þá.

Kojur

Kojur eru mjög algengar í sumarhúsum. Gott er að skoða efri kojur með það í huga að börn geti ekki dottið niður þegar þau eru sofandi eða að leika sér. Besta leiðin til að koma í veg fyrir slík slys er að góð öryggisbrík sé á efri koju og hún nái upp yfir dýnuna. Stiginn upp í efri koju þarf að vera stöðugur og vel festur við kojuna.

Hér er hætta á falli Há brún vel yfir dýnu og góður stigi – minni líkur á falli
Koja  - Hætta á falli Koja - minni líkur á falli

 

Ertu með sumarhúsið þitt í útleigu?

Það er ótalmargt sem þarf að huga að þegar sumarhús eru leigð út.  Brunavarnir  eru eitt af því. Huga þarf að merkingum neyðarútganga, staðsetningu slökkvibúnaðar og neyðarlýsingu.  Gott er að hafa samband við fagaðila eða slökkvilið til að fá ráðleggingar.

SJ-WSEXTERNAL-2