Eldvarnir

Reykskynjarar

Þetta litla tæki hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og er eitt ódýrasta, einfaldasta og áhrifaríkasta öryggistækið sem þú getur sett upp heima hjá þér.

Tegundir reykskynjara

Það eru til tvær gerðir af reykskynjurum:

  1. Jónískir reykskynjarar bregðast við reyk og henta í flest rými. Þeir eru næmir fyrir raka, hita og brælu frá matargerð og henta því ekki í eldhús eða þvottahús.
  2. Optískir reykskynjarar bregðast við reyk en eru ekki eins næmir fyrir öðrum breytingum og henta því vel í eða við eldhús og þvottahús.

Hægt er að velja um það að hafa reykskynjara sjálfstæða eða samtengda. Það er líka hægt að tengja þá við öryggiskerfið á heimilinu sem og tengja saman marga skynjara.

Hvar og hvernig á að setja upp reykskynjara

Þegar þú setur reykskynjarann upp þá á hann að vera sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sm. Þegar búið er að setja reykskynjarann upp þá þarf að kanna hvort hann virki.

Hvernig kanna ég hvort hann virki?

Til þess að kanna virkni reykskynjarans er ýtt á hnappinn á reykskynjaranum. Þá heyrist viðvörunarmerki sem þýðir að hann virkar.

Það er mikilvægt að farið sé yfir virkni reykskynjara heimilisins árlega. Gott er að hafa þá reglu að fara yfir alla reykskynjara á sama tíma ársins t.d. alltaf í desember. Ef stutt hljóð heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútna fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Þegar búið er að skipta um rafhlöðu þá þarf aftur að prófa hvort reykskynjarinn virki með því að ýta á hnappinn á honum.

Líftími reykskynjara

Reykskynjarar endast í um það bil 10 ár. Það er ágæt regla að skrá aftan á bakhlið skynjarans dagsetninguna þegar þú setur hann upp. Skynjarinn endist betur ef hann er ryksugaður að innan öðru hvoru en hentugt er að gera það um leið og skipt er um rafhlöðu.

Slökkvitæki

Farið yfir það með öllum á heimilinu hvernig á að hringja í 112 og hvar slökkvitæki heimilisins eru geymd. Lærið að nota þau og kennið öðrum á heimilinu einnig hvenær og hvernig á að gera það.

Hvernig geri ég flóttaáætlun?

Flóttaáætlun er gerð til þess að allir í fjölskyldunni viti hvernig bregðast eigi við ef eldur kviknar á heimilinu. Áætlunina þarf að æfa með öllum fjölskyldumeðlimum.

Hafðu þetta í huga

  1. Að tvær greiðar leiðir séu út úr húsinu og settu upp neyðarstiga eða kaðal ef þess þarf
  2. Að allir í húsinu viti að þeir eigi að fara út úr húsinu um leið og eldur kemur upp
  3. Að fyrirfram þarf að ákveða stað þar sem allir hittast þegar komið er út. Þannig er hægt að fullvissa sig um að allir í fjölskyldunni séu komnir út.
  4. Að hringja í 112 eins fljótt og þú getur.

Rafmagnstæki

Við sýslum með rafmagnstæki oft á dag og hugsum því oft ekki um að rafmagn getur verið hættulegt. Flestir brunar á heimilum eiga upptök sín í eldhúsinu, oftar en ekki vegna þess að við gleymum tækjum í gangi eða einfaldlega sofnum út frá eldamennsku.

Marga bruna á heimilum má rekja til þess að við gleymum rafmagnstækjum í gangi eins og til dæmis eldavélinni eða gleymum að taka straujárnið úr sambandi. Förum því aldrei frá eldavél í notkun. Við mælum sterklega með að skilja ekki eftirfarandi tæki í gangi þegar enginn er heima: þvottavélar, þurrkarar eða uppþvottavélar.

Fjöltengi

Það er góð regla að hafa sjónvörp, myndlykla, tölvur og þess háttar í sambandi við fjöltengi með rofa með ljósi þannig að hægt sé að slökkva alveg á þeim. Þessi tæki safna miklu ryki sem auðveldlega getur kviknað í. Munum að ryksuga og þrífa þau reglulega.

Er fjöltengið þitt ofhlaðið

Þegar mörgum orkufrekum heimilistækjum eins og ísskápum, örbylgjuofnum eða þvottavélum er stungið í samband við sama fjöltengið skapar það brunahættu. Ástæðan er sú að það eykur álagið á fjöltengið. Hið sama gerist ef fjöltengi er stungið í samband við annað fjöltengi. Það er gott að fara reglulega yfir ástand fjöltengja og henda ef ysti hlutinn er farinn að trosna eða sjá má bera víra. Hendið einnig klóm sem eru brotnar.

Eldvarnabandalagið

Eldvarnabandalagið er samráðsvettvangur um auknar eldvarnir. Fyrsta verkefni þess var að vinna samræmt fræðsluefni um eldvarnir heimilisins. Hér má fá nánari upplýsingar um eldvarnir fyrir heimili, sveitarfélög og fyrirtæki sem Eldvarnarbandalagið hefur unnið.

Kerti

Á hverju ári heyrum við í fjölmiðlum um bruna vegna kerta. Oftar en ekki heyrast slíkar fréttir í desember eða janúar og staðreyndin er að flestir kertabrunar eru yfir jól og áramót.

Hvers vegna kviknar í út frá kertum

Helsta ástæða kertabruna er að það gleymist að slökkva á kertunum eða logandi kerti eru skilin eftir í herbergi án eftirlits. Það á jafnt við á um heimili sem og fyrirtæki. Þess vegan ætti það að vera ófrávíkjanleg regla að slökkva á kertum þegar farið er út úr herbergi. Fyrirtæki ættu að fara yfir hvaða reglur gilda um kertanotkun hjá þeim. Víða má sjá kerti á kaffistofum og inn á skrifstofum sem auðveldlega getur gleymst að slökkva á.

Það er gaman að föndra

Oft er skraut eða aukahlutir úr pappír föndraðir utan um kerti, en slíkt getur aukið brunahættu. Þó svo að notuð séu eldtefjandi efni við föndur þá er varasamt að treysta alveg á slíkt. Ekki er ráðlagt að setja kubbakerti beint á borð eða trébakka. Staðsetning kerta skiptir miklu máli. Dæmi er um að kviknað hafi í síðu hári og fatnaði þar sem kerti voru staðsett þannig að auðvelt var að reka sig í þau svo sem á borði eða í glugga. Aðventukransinn eða borðskreytingin þarf að vera þannig að kertið nái ekki í skraut eða greni.

Það eru ekki öll ílát sem henta sem kertastjakar, falleg glös eða ílát geta hitnað eða sprungið við hitann frá kertinu. Oft er kertakveikurinn langur og þá er bara að klippa ofan af honum. Ástæðan er sú efri partur kveiksins brennur fyrst, brotnar af og dettur á borð eða í skreytingu og getur kveikt í. Hafið ekki mishá kerti of nærri hvort öðru. Kertalogi lægra kertis getur brætt hærra kertið. Skoðaðu umbúðir og veldu kerti þar sem kveikurinn nær ekki alveg niður.

Útikerti

Staðsetning útikerta skiptir miklu máli. Ekki er öruggt að setja þau á trépall, trégirðingu eða annað efni sem brennur auðveldlega.

  • Staðsetjið útikerti ekki of nærri inngangi eða í tröppum þar sem til dæmis viðskiptavinir eða gestir geta rekið sig í þau. Logi útikerta getur auðveldlega náð til flaksandi yfirhafna og gangandi barna.
  • Mörg útikerti eru þannig gerð að vax þeirra verður allt fljótandi og formið verður heitt.
  • Snertið ekki form útikerta með berum höndum og alls ekki þegar kveikt er á þeim.
  • Ef snjór eða vatn slettist á bráðið vax útikerta getur orðið sprenging og heitt vaxið skvettist á þann sem stendur nærri.

Ekki hella vatni á útikerti ef ætlunin er að slökkva á því – betra er að kæfa eldinn.

Aðrar upplýsingar

Nágrannavarsla

Miklu máli skiptir að bregðast rétt við ef brotist er inn til þín. Gættu að því að innbrotsþjófurinn gæti ennþá verið á vettvangi og því verður þú fyrst og fremst að huga að öryggi þínu. Sýndu því skynsemi og ekki fara inn í húsið ef þú telur að einhver sé inn í því. Hringdu strax á lögregluna í 112 og tilkynntu innbrotið.

SJ-WSEXTERNAL-3