Ársskýrsla

Sjóvá 2020

Helstu lykiltölur

Eigin iðgjöld

19.817m.kr.

↑ 0,6%

Eigin tjón

14.223m.kr.

↑ 1,2%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

1968m.kr.

↓ -17,0%

Eiginfjárhlutfall

36,0%

Ávöxtun eigin fjár

28,3%

Gjaldþolshlutfall

1,67

Samsett hlutfall

Afkoma ársins 2020 af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.968 m. kr. og dregst lítillega saman á milli ára og var samsett hlutfall 92,0% á árinu, samanborið við 91,2% árið áður. Rekstrarniðurstaðan er afar sterk í ljósi sviptinga í efnahagslífinu á liðnu ári og jafnframt þar sem Sjóvá felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí í kjölfar samdráttar í umferð og fækkunar tjóna. Nam sú niðurfelling 650 m.kr. og kemur til viðbótar þeim 640 m.kr. sem tjónlausir vildarviðskiptavinir okkar fengu greiddar í formi Stofnendurgreiðslu á árinu.

  • Tjónahlutfall
  • Endurtryggingahlutfall
  • Kostnaðarhlutfall

*Samanburðarfjárhæðum fyrir árið 2019 hefur verið breytt í samræmi við leiðbeinandi tilmæli FME SÍ nr. 1/2020

Ávarp forstjóra og stjórnarformanns

Sterkur grunnrekstur

"Árið 2020 var okkur hjá Sjóvá hagfellt og komu styrkleikar félagsins berlega í ljós við þær krefjandi aðstæður sem uppi voru á árinu. Afkoma af rekstri félagsins nam 5,3 ma.kr. og er niðurstaðan sterk hvort sem litið er til vátryggingarekstrar eða fjárfestingarstarfsemi. Markvissar aðgerðir síðustu ára til þess að bæta vátryggingareksturinn héldu áfram að skila árangri og fjárfestingastefna félagsins reyndist vel á sveiflukenndum verðbréfamörkuðum."

Sterkur rekstur

Árið 2020 var okkur hjá Sjóvá hagfellt og komu styrkleikar félagsins berlega í ljós við þær krefjandi aðstæður sem uppi voru á árinu. Afkoma af rekstri félagsins nam 5,3 ma.kr. og er niðurstaðan sterk hvort sem litið er til vátryggingarekstrar eða fjárfestingarstarfsemi. Markvissar aðgerðir síðustu ára til þess að bæta vátryggingareksturinn héldu áfram að skila árangri og fjárfestingastefna félagsins reyndist vel á sveiflukenndum verðbréfamörkuðum.

Vátryggingarekstur í jafnvægi og 1.300 m.kr. ráðstafað til viðskiptavina

Afkoma ársins 2020 af vátryggingarekstri fyrir skatta nam 1.968 m.kr. og dregst lítillega saman á milli ára, en samsett hlutfall var 92,0% á árinu samanborið við 91,2% árið áður. Iðgjaldavöxtur nam 1,0% á árinu í heild og vöxtur eigin iðgjalda var 0,6%. Þessi rekstrarniðurstaða verður að teljast afar sterk í ljósi aðstæðna, einnig þar sem Sjóvá, eitt tryggingafélaga, felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí. Var ákvörðunin grundvölluð á þeim mikla samdrætti í umferð sem átt hafði sér stað frá upphafi samkomubanns í kjölfar útbreiðslu Covid-19 og afleiðingum hans sem endurspegluðust í umtalsvert færri tjónstilkynningum en árið áður. Niðurfellingin nam 650 m.kr. og kom til viðbótar þeim 640 m.kr. sem tjónlausir vildarviðskiptavinir okkar fengu greiddar í formi Stofnendurgreiðslu á árinu, 26. árið í röð.

Iðgjaldavöxtur á einstaklingssviði vóg þrátt fyrir niðurfellingu iðgjalda upp á móti samdrætti í iðgjöldum á fyrirtækjasviði sem skýrðist einna helst af minnkandi umsvifum ferðaþjónustu vegna heimsfaraldursins. Markvissar aðgerðir síðustu ára eru enn að skila batnandi rekstri þar sem saman fer góður iðgjaldavöxtur umfram vöxt eigin tjóna og er það í samræmi við yfirlýsta stefnu Sjóvár um viðunandi arðsemi af vátryggingarekstrinum. Undanfarna 19 fjórðunga eða allt frá öðrum ársfjórðungi 2016 hefur vátryggingareksturinn skilað jákvæðri afkomu og byggir sá góði árangur á fyrrnefndum aðgerðum sem snúa að iðgjaldasetningu, áhættumati, forvörnum og iðgjaldavexti í formi aukinnar sölu.

Miklar sveiflur á eignamörkuðum á árinu og afkoma af fjárfestingarstarfsemi umfram væntingar

Afkoma af fjárfestingarstarfsemi ársins 2020 fyrir skatta nam 3.960 m.kr. Ávöxtun af fjárfestingareignum í stýringu nam 13,2% á árinu og vegur þar þyngst afkoma skráðra hlutabréfa sem þróaðist með afar jákvæðum hætti á síðari hluta ársins eftir miklar lækkanir vegna óvissu í kjölfar útbreiðslu Covid-19 síðasta vor. Eignir í stýringu námu 43,8 ma.kr. í lok ársins og hafa vaxið í takt við góða rekstrarafkomu sem og vegna þess að fallið var frá áætlaðri arðgreiðslu vegna ársins 2019.

Rekstur félagsins gekk því afar vel á árinu 2020 hvort sem litið er til vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi og nam arðsemi eigin fjár 28,3% á árinu.

Arðgreiðslustefna og fjárhagslegur styrkur

Arðgreiðslustefna félagsins er að greiða að lágmarki helming af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs, að því gefnu að félagið haldist áfram fjárhagslega sterkt. Stjórn lagði fram á aðalfundi þann 12. mars 2020 tillögu þess efnis að fresta ákvörðun um greiðslu arðs fyrir árið 2019 og var tillagan samþykkt. Tillaga stjórnar tók mið af tilmælum í yfirlýsingu EIOPA (e. The European Insurance and Occupational Pensions Authority) þess efnis að fresta öllum valkvæðum arðgreiðslum og endurkaupum sökum óvissunnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Boðað var til hluthafafundar 25. nóvember þar sem lagt var til í ljósi aðstæðna að greiða ekki arð til hluthafa á árinu 2020 þar sem tilmæli EIOPA voru enn í gildi. Fjárhagslegur styrkur og þar með gjaldþol var á þeim tíma afar sterkt og hefði sannanlega staðið undir arðgreiðslu. Hluthafafundur samþykkti tillögu stjórnar og að hagnaður ársins kæmi til hækkunar eigin fjár félagsins. Þann 13. janúar sl. voru fyrrgreind tilmæli eftirlitsaðila endurskoðuð og brýnt fyrir vátryggingafélögum að gæta ýtrustu varfærni við stýringu eiginfjár vegna óvissunnar af völdum faraldursins. Í því ljósi ákvað stjórn að leggja til á aðalfundi 2021 að fyrir árið 2020 verði greiddur arður til hluthafa 1,99 kr. á hlut eða um 2.650 m.kr.

Fjárhagslegur styrkur félagsins er mikill líkt og ársreikningur félagsins sýnir og er gjaldþolshlutfall félagsins 1,67 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu en samkvæmt lögum skal gjaldþolið ekki vera lægra en 1,00. Gjaldþolshlutfallið er nálægt efri mörkum áhættuvilja stjórnar og leitast verður við að færa gjaldþolshlutfall til fyrra horfs þegar óvissa í efnahagslífinu minnkar. Eiginfjárhlutfall eftir fyrirhugaða arðgreiðslu er 33,1% miðað við árslok 2020, fjárhagsstaða félagsins áfram traust og félagið eftir sem áður fært um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum og mæta ófyrirséðum áföllum í rekstri. Ákvörðun stjórnar um tillögu um greiðslu arðs er tekin í fullu samráði við eftirlitsaðila á markaði. Stjórn mun einnig leggja til við aðalfund að endurnýja heimild stjórnar til kaupa á eigin hlutum í félaginu.

Ánægðustu viðskiptavinir á vátryggingamarkaði, fjórða árið í röð

Sjóvá býr að sterkum stofni viðskiptavina og hefur áhersla undanfarin ár verið lögð á að bæta þjónustuna, mæta viðskiptavinum út frá þeirra þörfum og óskum um þjónustu. Einn liður í þessari vegferð var að styrkja samtal og samskipti við viðskiptavini og byggja á vegvísum Sjóvár um að sýna frumkvæði, tala skýrt og segja hlutina eins og þeir eru. Vildarþjónustan Stofn og endurgreiðsla iðgjalda til tjónlausra og skilvísra viðskiptavina hafa verið aðalsmerki Sjóvár á þriðja áratug auk þess sem net útibúa og umboðsmanna svarar kalli viðskiptavina um að fá þjónustu í heimabyggð. Viðskiptavinir kunna vel að meta þessa nálgun Sjóvár og traustið og samtalið styrkist ár frá ári. Við einsettum okkur árið 2015 að vera með ánægðustu viðskiptavini á tryggingamarkaði og munum halda áfram þeirri vegferð að bæta þjónstuna og gera hana enn betri. Sterk ímynd og staða félagsins á markaði var staðfest nú í janúar þegar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar voru kynntar og í ljós kom að Sjóvá átti ánægðustu viðskiptavini á tryggingamarkaði á árinu 2020, fjórða árið í röð. Sjóvá fékk hæstu einkunn sem náðst hefur frá upphafi á íslenskum tryggingamarkaði, eða 72,6, og setur þannig ný viðmið í þjónustu við viðskiptavini á tryggingamarkaði. Þetta hefur sannarlega verið mögnuð vegferð hingað til og við erum afar þakklát fyrir þá viðurkenningu á þjónustustefnu félagsins sem felst í þessum niðurstöðum.

Mannauðurinn styrkur í áskorunum ársins

Starfsfólk félagsins sýndi mikla seiglu og aðlagaðist hratt nýju vinnuumhverfi strax í upphafi samkomutakmarkana vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Stærstur hluti starfsfólks sinnti störfum sínum frá eigin heimili án þess að það hafi bitnað á þjónustuupplifun viðskiptavina. Starfsfólki Sjóvár tókst að auka enn ánægju viðskiptavina með fjarþjónustu og auka sölu til einstaklinga. Eftirtektarverður árangur í rekstri og ánægju viðskiptavina endurspeglar sannarlega þann kraft sem býr í starfsmannahópnum og afhjúpar verðmæti  einstakrar vinnustaðamenningar og jákvæðs starfsanda sem hefur ef eitthvað styrkst enn frekar í þeim áskorunum sem staðið hefur verið frammi fyrir á árinu. Skýrt verklag og ferlar, eftirtektarverður metnaður og vilji starfsfólks til að veita framúrskarandi þjónustu er lykillinn að árangri félagsins á nýliðnu ári. Starfsánægja mældist í ár enn hærri en árið áður og er fylgni við ánægju viðskiptavina engin tilviljun þar sem samhljómur þarf að vera milli þessara mælikvarða eigi árangur að nást. Við höfum haft gæfu til að velja úrvalsfólk til starfa. Við lítum ekki á það sem sjálfsagt mál að hópurinn vinni svo vel saman sem raun ber vitni og svo virðist sem áskoranir ársins hafi hvatt okkar fólk til enn frekari dáða á árinu.

Áhrif heimsfaraldurs

Við þær aðstæður sem uppi voru á nýliðnu ári var leitast við að laga starfsemi félagsins að nýjum aðstæðum þannig að sem allra minnst röskun yrði á þjónustu við viðskiptavini. Áhersla var lögð á að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina og óbreyttan rekstur þrátt fyrir tímabundnar lokanir starfsstöðva. Ekki urðu teljandi tjón tengd faraldrinum og er félagið ekki berskjaldað fyrir tjónum sem tengjast rekstrarstöðvun fyrirtækja vegna faraldra.

Um 7% iðgjalda Sjóvár á árinu 2020 komu frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu líkt og bílaleigum, hópferðabílum, hótelum og flugfélögum, en það hlutfall lækkaði úr 10% frá árinu áður. Þetta er sá hópur fyrirtækja sem hefur orðið fyrir hvað mestum samdrætti í faraldrinum og skýrir lækkun iðgjalda á fyrirtækjamarkaði á árinu. Mikill metnaður hefur verið lagður í að vinna náið með þessum fyrirtækjum, líkt og öllum viðskiptavinum félagsins, við að leysa úr þeirri stöðu sem komið hefur upp. Samtal um þarfir í tryggingavernd og endurmat á stöðu mála hafa verið mikilvægur þáttur í þessari vinnu og góður grunnur fyrir það þegar atvinnulífið styrkist á ný og þráðurinn verður tekinn upp aftur. Vel var fylgst með þróun innheimtumála og hafa útlánatöp verið minni en reiknað hefði mátt með. Ljóst er að útbreiðsla Covid-19 hefur haft neikvæð áhrif á efnahags- og markaðsaðstæður á Íslandi líkt og á heimsvísu og enn ríkir töluverð óvissa um endanleg áhrif heimsfaraldursins.

Samfélagslega ábyrgur rekstur – í fararbroddi í jafnréttismálum

Það er yfirlýst stefna félagsins að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið og teljum við að samfélagslega ábyrgur rekstur skili sér í aukinni arðsemi til framtíðar. Við höfum metnað til að gera vel í þessum efnum og fengum viðurkenningu fyrir eitt af okkar áherslumálum á liðnu ári þegar við tókum á móti hvatningarverðlaunum jafnréttismála sem árlega eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jafnrétti á markvissan hátt í starfsemi sinni. Sjóvá var fyrsta skráða félagið á aðallista Nasdaq til að fá einkunnina 10 á GEMMAQ kynjakvarðanum árið 2019 en mælikvarðinn veitir fjárfestum og almenningi upplýsingar um stöðu kynjajafnréttis í leiðtogastöðum skráðra félaga. Félagið hefur nú einkunnina 9 ásamt þremur efstu skráðu félögum. Sjóvá hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll með skýrri stefnu og skipulögðum ákvörðunum um ráðningar.

Við erum sannfærð um að áhersla á jafnrétti og fjölbreyttur mannauður skili rekstrarlegum ávinningi, stuðli að betri ákvarðanatöku hvort sem það er í stjórn, framkvæmdastjórn eða annars staðar í starfseminni. Jafnrétti stuðlar að bættri fyrirtækjamenningu og starfsánægju og að aukinni verðmætasköpun. Við erum afar þakk­lát fyrir þessa viður­kenn­ingu og lítum á hana sem hvatn­ingu til að vinna áfram af krafti að þessum mik­il­væga mála­flokki.

Sjóvá vinnur að því að auka samþættingu áherslna Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við markmið í starfseminni. Í samræmi við eðli rekstrarins hefur áhersla verið lögð á forvarnir, jafnréttismál, heilbrigðan rekstur og framþróun í samræmi við markmið 3, 5 og 8. Einnig er leitast við að tryggja ábyrga neyslu og stuðla að umhverfisvænum lausnum samkvæmt markmiði 12 og grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra í samræmi við markmið 13.

Áherslur Sjóvár í forvörnum snúast um að tryggja heilsu og vellíðan með því að fækka alvarlega slösuðum og dauðsföllum m.a. vegna umferðarslysa. Leitast er við að uppfylla markmið um ábyrga neyslu og framleiðslu, draga úr sóun með forvörnum, minnkun úrgangs, auka endurvinnslu og endurnýtingu. Stærstu forvarnaverkefni Sjóvár á árinu 2020 sneru að áhættuskoðunum og ráðgjöf til viðskiptavina á fyrirtækjamarkaði um brunavarnir og öryggi húsnæðis en aukning stærri brunatjóna er áhyggjuefni og forgangsmál að tryggja öryggi á þessu sviði. Félagið tók svo þátt í árveknisátaki Slysavarnafélagsins Landsbjargar um mikilvægi notkunar endurskinsmerkja.

Sjóvá hefur um árabil verið aðalbakhjarl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem sinnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Við erum þakklát sjálfboðaliðum innan þeirra raða sem bregðast við neyð árið um kring og erum stolt af því að tryggja þessa starfsemi og það fólk sem henni sinnir. Í ljósi góðrar rekstrarafkomu á árinu 2020 og áherslna um að styrkja innviði neyðarviðbragða var bætt enn frekar í samfélagslega styrki og fengu neyðarvarnir Rauða krossins m.a. styrk frá félaginu undir lok síðasta árs til þess að þjálfa viðbragðshópa og kaupa neyðarbúnað.

Nýliðið ár var afar sérstakt og aðstæður ólíkar því sem við höfum átt að venjast. Daglegu lífi voru settar áður óþekktar skorður og viðbrögð við heimsfaraldri Covid-19 settu mark sitt á samfélagið allt. Áhrifa faraldursins á atvinnulíf, starfshætti og á líðan einstaklinga gætir enn og mun þeirra líklega gæta næstu misseri hið minnsta.

Okkur er nú efst í huga þakklæti til starfsfólks Sjóvár fyrir frábært starf við krefjandi aðstæður og til viðskiptavina fyrir afar farsælt samstarf og tryggð þeirra við félagið á nýliðnu ári.

Ánægðari viðskiptavinir 4 ár í röð

Sjóvá var efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni árið 2020, fjórða árið í röð. Niðurstöðurnar voru tilkynntar í janúar 2021 og vorum við með marktækt ánægðari viðskiptavini en önnur tryggingafélög á markaðinum, með hæstu einkunn sem tryggingafélag hefur fengið frá því að mælingar Ánægjuvogarinnar hófust árið 2002.

Við erum að vonum afar ánægð með þessar niðurstöður enda liggur mikil vinna að baki þessum árangri. Allt frá árinu 2015 hefur verið unnið með markvissum hætti að því að auka ánægju viðskiptavina með breyttum áherslum í þjónustu, auknu frumkvæði í samskiptum og einföldun skilaboða. Að sama skapi hefur verið unnið ötullega að því að auka og styðja við ánægju starfsfólks enda er það trú okkar að þetta tvennt haldist þétt saman í hendur. Í mælingum Gallup á starfsánægju á árinu 2020 mældist starfsánægja hjá okkur hærri en nokkru sinni og er hún með því hæsta sem mælist hjá íslenskum fyrirtækjum, samkvæmt gagnagrunni Gallup.

Þessar niðurstöður eru ekki hvað síst ánægjuefni í ljósi þeirra áskorana sem fylgdu heimsfaraldrinum. Það var vissulega ekki einfalt mál að þurfa með örskömmum fyrirvara að útfæra starfsemina þannig að allir gætu starfað frá sinni heimaskrifstofu og veitt sömu framúrskarandi þjónustuna, en með góðri samvinnu og einbeittum vilja tókst það, og eiga bæði viðskiptavinir okkar og starfsfólk mikið hrós skilið fyrir mikla aðlögunarhæfni á þessum óvenjulegu tímum.

Sem fyrr lítum við hjá Sjóvá á árangurinn í Ánægjuvoginni sem hvatningu til enn betri verka og við ætlum okkur að veita enn betri þjónustu við viðskiptavini okkar á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði á árinu 2021, með alla reynsluna sem við höfum í farteskinu frá árinu 2020.

Viðskiptavinir greiddu ekki fyrir bílatryggingar heimilisins í maí

Árið 2020 var fordæmalaust í mörgu tilliti. Þegar fyrstu samkomutakmarkanir ársins höfðu verið í gildi í nokkurn tíma sýndu mælingar Vegagerðarinnar að umferð hafði dregist verulega saman. Við tókum ákvörðun um að bregðast hratt við þessum breyttu forsendum, með hag viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Því var ákveðið að fella niður iðgjöld bifreiðatrygginga einstaklinga fyrir maímánuð, vegna áætlaðrar fækkunar slysa og tjóna í umferðinni. Með þessum hætti var hægt að bregðast við þannig að viðskiptavinir nytu þess strax.

Þessi niðurfelling ökutækjatrygginga einstaklinga í maímánuði mæltist afar vel fyrir, bæði meðal viðskiptavina okkar og annarra. Það urðum við strax vör við í gegnum þær þakkir sem okkur bárust þegar við létum viðskiptavini vita af henni og eins í könnun sem framkvæmd var á viðhorfi til aðgerðarinnar.

Það voru um 43.000 viðskiptavinir sem fengu iðgjöld bifreiðatrygginga sinna fyrir maímánuð felld niður, í formi niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu, eftir því sem við átti og nam upphæð niðurfellingarinnar í heild um 650 milljónum króna.

Neyðarvarnir Rauða krossins styrktar

Náttúruhamfarir settu svip sinn á árið 2020, jarðaskjálftar, veðurofsar og skriðuföll. Sjóvá hefur um langt skeið verið aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og þannig stutt við bakið á þeirri mikilvægu starfsemi, sem reyndi mjög á árið 2020 eins og árin á undan. Í ljósi sérstakra aðstæðna var ákveðið að bæta um betur og styrkja einnig neyðarvarnir Rauða kross Íslands um 15 milljónir króna og var styrkurinn afhentur í desember.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land bregðast við fjölda alvarlegra atburða árlega, s.s. þegar það verða miklar náttúruhamfarir, stór samgönguslys, húsbrunar eða annað, og setja t.d. upp fjöldahjálparstöðvar þar sem veittur er sálrænn stuðningur og skyndihjálp. Þörfin fyrir þessar neyðarvarnir hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Í sama mánuði og styrkurinn var afhentur reyndi enn á þessa mikilvægu starfsemi, sem og starfsemi Landsbjargar, þegar aurflóð féllu á Seyðisfirði.

Það var okkur mikil ánægja að geta stutt við þetta góða starf á árinu, enda er það í samræmi við hlutverk Sjóvá, áherslur í styrktarmálum og heimsmarkmið 12 um að auka viðbragðsáætlanir og viðbúnað vegna vár af völdum náttúruhamfara, sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem við leggjum sérstaka áherslu á.