Ársskýrsla

Sjóvá 2019

Helstu lykiltölur

 

 

Eigin iðgjöld

19701m.kr.

14,4%

Eigin tjón

14861m.kr.

13,6%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

2192m.kr.

34,4%

Eiginfjárhlutfall

32,0%

Ávöxtun eigin fjár

25,6%

Gjaldþolshlutfall

1,48

 

Samsett hlutfall

Á árinu 2019 hélt vátryggingareksturinn áfram að styrkjast og var samsett hlutfall 95,1% samanborið við 97,4% árið áður.

  • Tjónahlutfall
  • Endurtryggingahlutfall
  • Kostnaðarhlutfall

 

Ávarp forstjóra og stjórnarformanns 

Sterkur grunnrekstur

 

"Sá góði árangur sem við náðum í rekstri á árinu 2019 liggur fyrst og fremst í þeim mannauði sem við hjá Sjóvá búum yfir og leggjum okkur fram um að hlúa að og ekki síður fyrirtækjamenningunni sem er með þeim hætti að eftir er tekið."

Árið 2019 var okkur hjá Sjóvá hagfellt að flestu leyti. Afkoma af rekstri félagsins nam 3,9 ma.kr. og er niðurstaðan afar ánægjuleg hvort sem litið er til vátryggingarekstrar eða fjárfestingastarfsemi. Iðgjaldavöxtur nam 14% á milli ára sem stuðlar að sífellt bættum vátryggingarekstri og lægra samsettu hlutfalli sem nam 95,1% á árinu, í takt við birtar horfur fyrir árið. Nálgumst við þannig hratt yfirlýst langtímamarkmið félagsins um afkomu af vátryggingarekstri sem er um 95% samsett hlutfall. Á sveiflukenndum fjárfestingamörkuðum hefur það verið markmið okkar að byggja ekki afkomuna um of á fjárfestingatekjum og að vátryggingareksturinn, okkar grunnrekstur, sé sjálfbær. Það hefur okkur tekist undanfarna 15 fjórðunga eða allt frá öðrum ársfjórðungi 2016 og má rekja til markvissra aðgerða sem snúa að iðgjaldasetningu, áhættumati, forvörnum og iðgjaldavexti.

Þessar áherslur eru unnar í samráði við viðskiptavini okkar og byggja fyrst og fremst á því góða sambandi og samskiptum sem við eigum við þá, hvort sem það er á fyrirtækjamarkaði eða einstaklingsmarkaði. Í þeim samskiptum höfum við að leiðarljósi vegvísa félagsins, við leggjum okkur fram um að sýna frumkvæði, gera okkur skiljanleg ásamt því að segja hlutina eins og þeir eru. Sem dæmi hefur starfsfólk fyrirtækjasviðs lagt á sig mikla vinnu við að heimsækja þá staði og viðskiptavini sem talist geta í áhættuhópi í þeim tilgangi að fara yfir brunavarnir og aðra áhættuþætti í ljósi tíðra stórbruna undanfarin ár. Heimsótt voru 200 fyrirtæki á árinu 2019 og var starfsfólki okkar afar vel tekið enda allra hagur að fyrirbyggja slys á fólki og fjárhagstjón. Annað dæmi er ferðaþjónustuhópur sem starfræktur hefur verið innan félagsins og hefur það að markmiði að þjónusta enn betur okkar stærstu atvinnugrein. Það er gert bæði með beinum hætti í samstarfi við viðskiptavini okkar og með óbeinum hætti með því að styðja við greinina líkt og þegar gefið var út nýtt Íslandskort á vef Safetravel en á kortinu, sem unnið var í samstarfi við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, er hægt að nálgast allar upplýsingar um veður og færð á vegum landsins á einum stað. Frumkvæðissamskipti á einstaklingsmarkaði snúa fyrst og fremst að því að yfirfara tryggingar og ráðleggja breytingar í takt við breyttar aðstæður fólks. Ráðgjafar okkar á einstaklingsmarkaði höfðu samband við 55 þúsund einstaklinga og/eða fjölskyldur á árinu.

Þjónustufyrirtæki í fremstu röð

Á árinu 2019 voru 25 ár síðan Sjóvá hóf að endurgreiða tjónlausum viðskiptavinum í Stofni hluta iðgjalda sinna. Á þessum árum hafa rúmlega 70 þúsund fjölskyldur fengið endurgreiðslu og nemur heildarfjárhæð Stofnendurgreiðslunnar á verðlagi dagsins í dag tæplega 11 milljörðum króna. Í lok árs voru um 35 þúsund fjölskyldur í Stofni en Stofn er helsta aðgreining Sjóvá á íslenskum tryggingamarkaði og gefur okkur færi á að umbuna árlega okkar bestu viðskiptavinum fyrir tryggð og tjónleysi.

Stafræn vegferð félagsins gengur vel og er liður í að viðhalda og auka ánægju viðskiptavina. Við leggjum áherslu á að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og að veita þjónustu sem bæði viðheldur góðum viðskiptum og stuðlar að nýjum. Til að viðhalda sterkri stöðu okkar á vátryggingamarkaði er mikilvægt að stafræn sem og önnur þjónusta verði veitt á forsendum viðskiptavina og að þeirra þörfum verði mætt hverju sinni.

Ánægja viðskiptavina okkar hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og mældist í janúar sú mesta á meðal viðskiptavina á tryggingamarkaði, þriðja árið í röð og nú með marktækum mun. Okkar markmið allt frá árinu 2015 hefur verið að vera með ánægðustu viðskiptavini á tryggingamarkaði og höfum við einsett okkur að halda þeirri stöðu og halda áfram að gera góða þjónustu enn betri.

Góð ávöxtun á eignamörkuðum

Afkoma af fjárfestingastarfsemi félagsins var umfram væntingar á árinu og var ávöxtun af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum með ágætum. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn tók við sér og viðbrögð við vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands létu ekki á sér standa á skuldabréfamarkaði. Hafa ber í huga að sú vaxtalækkun sem varð á árinu kemur til með að hafa áhrif á framtíðar ávöxtunarmöguleika félagsins og því sjaldan verið mikilvægara en nú að tryggja viðunandi framlegð af vátryggingarekstrinum. Þar stöndum við vel að vígi.

Samfélagslega ábyrgur rekstur

Sjóvá er í fararbroddi í jafnréttismálum, það sýna allar tölur. Hlutfall karla og kvenna í framkvæmdastjórn er jafnt og hlutfall kvenna í stjórn 60%. Sjóvá er fyrsta skráða félagið á aðallista Nasdaq til að fá einkunnina 10 á GEMMAQ kynjakvarðanum en mælikvarðinn veitir fjárfestum og almenningi upplýsingar um stöðu kynjajafnréttis í leiðtogastöðum skráðra félaga. Þá er Sjóvá þátttakandi og styrktaraðili í Jafnvægisvoginni sem er hreyfiaflsverkefni unnið m.a. í samstarfi við FKA og forsætisráðuneytið. Tilgangur verkefnisins er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til þess að verða fyrirmynd annara þjóða á þessu sviði.

Það er trú okkar að fjölbreyttur mannauður hafi jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja, stuðli að betri ákvarðanatöku hvort sem það er í stjórn, framkvæmdastjórn eða annars staðar í starfseminni ásamt því að skila aukinni verðmætasköpun og rekstrarlegum ávinningi.

Sjóvá hefur um árabil verið aðalbakhjarl Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hluti af Ólympíufjölskyldu ÍSÍ frá upphafi. Leitast er við að þeir fjármunir sem varið er til góðgerðamála styðji við hlutverk og stefnu Sjóvár og erum við afar stolt af því farsæla samstarfi sem við höfum átt við bæði þessi samtök. Ofarlega í huga eru þau fjölbreyttu verkefni sem sjálfboðaliðar Landsbjargar hafa sinnt í vetur og ljóst að hlutverk þeirra er stórt í íslensku samfélagi og ábyrgð þeirra mikil. Við erum þakklát fyrir þeirra framlag til samfélagsins og að þau tryggi sitt fólk og hagsmuni hjá okkur.

Við birtum nú í fyrsta sinn ófjárhagslegar upplýsingar sem tengjast samfélagsábyrgð, öllu heldur umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum samkvæmt leiðbeiningum Nasdaq. Þar eru birtir þeir mælikvarðar sem taldir eru skipta félagið og viðskiptavini okkar hvað mestu máli. Það er yfirlýst stefna félagsins að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið og teljum við að samfélagslega ábyrgur rekstur skili sér í aukinni arðsemi til framtíðar. Við höfum metnað til að gera vel í þessum efnum.

Óbreytt arðgreiðslustefna og tillaga um áframhaldandi endurkaup

Allt frá skráningu félagsins á markað hefur það verið stefna stjórnar að Sjóvá sé arðgreiðslufélag og að a.m.k. 50% af hagnaði hvers árs sé greiddur út í arð til hluthafa, að teknu tilliti til gjaldþols félagsins. Stjórn mun leggja til við aðalfund að greiða út arð sem nemur 1,44 kr. á hlut eða um 1.940 milljónir króna fyrir árið 2019 sem verður greiddur út í lok mars ef tillagan fær brautargengi. Félagið er fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,48 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu, sem er vel yfir þeim viðmiðum sem sett hafa verið um fjárhagsstöðu Sjóvár, stöðugleika í rekstrinum og áhættuvilja stjórnar.

Á aðalfundi félagsins árið 2019 var samþykkt heimild til handa stjórn til kaupa á eigin bréfum með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Stjórn félagsins tók á grundvelli fyrrgreindrar heimildar ákvörðun um endurkaupaáætlun og keypti félagið eigin bréf að nafnverði um 42,6 milljónir króna en endurkaupum var hætt þann 26. nóvember 2019. Í byrjun árs 2020 hóf félagið endurkaup samkvæmt nýrri áætlun. Er þetta fimmta árið í röð sem endurkaupaáætlanir eru framkvæmdar um kaup á eigin bréfum í félaginu.

Stjórn mun leita eftir nýrri heimild aðalfundar fyrir kaupum á eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar á árinu 2020 líkt og undanfarin ár. Markmið með endurkaupaáætlun er líkt og áður að lækka hlutafé félagsins og stuðla að hagkvæmri fjámagnsskipan.

Undir lok árs 2018 tilkynnti félagið um að stefnt skyldi að útgáfu víkjandi skuldabréfa. Í fjárfestakynningu með uppgjöri fyrsta ársfjórðungs ársins 2019 var tilkynnt um að beðið væri álits um skattalega meðferð vaxtagjalda af skuldabréfinu. Nú er beðið niðurstöðu yfirskattanefndar í sama máli sem er væntanleg á fyrri árshelmingi þessa árs.

 

Sá góði árangur sem við náðum í rekstri á árinu 2019 liggur fyrst og fremst í þeim mannauði sem við hjá Sjóvá búum yfir og leggjum okkur fram um að hlúa að og ekki síður fyrirtækjamenningunni sem er með þeim hætti að eftir er tekið. Það eru fá fyrirtæki á landsvísu sem mælast með meiri starfsánægju og ef litið er til þess markaðar sem Sjóvá starfar á þá erum við í sérflokki. Stjórn og framkvæmdastjórn félagsins vill þakka starfsmönnum félagsins fyrir þeirra framlag ásamt því að þakka viðskiptavinum samfylgdina á árinu 2019.

 

Ánægðari viðskiptavinir

Sjóvá er efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni, þriðja árið í röð. Niðurstöðurnar fyrir árið 2019 voru kynntar í janúar 2020 og vorum við með marktækt ánægðari viðskiptavini en önnur tryggingafélög á markaðnum. Við gleðjumst yfir þessum niðurstöðum og hlökkum til að halda áfram að gera þjónustu okkar við viðskiptavini enn betri.

Að baki þessum árangri liggur markviss vinna sem við höfum sinnt af krafti á undanförnum árum. Við leggjum okkur öll fram um að veita framúrskarandi þjónustu, sama hvort það er við sölu, ráðgjöf eða afgreiðslu tjóna. Við erum með öfluga þjónustu í útibúum um allt land um leið og við bjóðum upp á notendavænar rafrænar lausnir sem viðskiptavinir geta nýtt sér þegar þeir kjósa. Við tölum um tryggingar á mannamáli og erum eina tryggingafélagið sem umbunar tjónlausum viðskiptavinum. Við vinnum úr þeim ábendingum sem okkur berast frá viðskiptavinum og nýtum þær til að bæta þjónustuna stöðugt.

Það hefur markvisst verið unnið að því að auka ánægju starfsfólks enda trú okkar að ánægðara starfsfólk þýði ánægðari viðskiptavini. Mikil áhersla hefur verið lögð á jafnréttismál og unnið er eftir skýrri stefnu í þeim efnum. Við höfum einnig sinnt forvörnum heimila og fyrirtækja af krafti og lagt sérstaka áherslu á að miðla þekkingu okkar þar.

Síðast en ekki síst erum við ávallt meðvituð um hlutverk okkar, að tryggja verðmætin í lífi fólks og gera það með þeim hætti að tryggingaverndin endurspegli aðstæður viðskiptavinarins hverju sinni. Þannig getum við veitt fólki þá hugarró sem felst í að vita að ef eitthvað kemur upp þá ert þú og fjölskylda þín með góða vernd.

Samstarf við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu

Við hjá Sjóvá höfum allt frá stofnun Slysavarnarfélagsins Landsbjargar átt afar farsælt samstarf við samtökin um tryggingar, forvarnir og öryggismál. Við erum sérstaklega þakklát fyrir þetta samstarf og þau mikilvægu verkefni sem það hefur fætt af sér.

Gott dæmi um slíkt verkefni er nýtt veðurkort sem var opnað á safetravel.is í nóvember 2019 en kortið var þróað af Landsbjörgu og unnið í samstarfi við okkur. Með tilkomu veðurkortsins er mun einfaldara fyrir ökumenn að afla sér upplýsinga um veður og færð um allt land og er þetta því stórt skref í að auka öryggi allra þeirra sem ferðast á vegum landsins. Við framleiddum einnig sérhannað ökupróf fyrir ferðafólk í samstarfi við Landsbjörgu og Hertz en allir ferðamenn sem leigja bíl hjá Hertz þurfa að horfa á fræðslumyndband og taka síðan ökuprófið til að tryggja að þeir þekki til aðstæðna á íslenskum vegum.

Það mæddi mikið á sjálfboðaliðum björgunarsveita Landsbjargar á árinu 2019 og voru landsmenn reglulega minntir á mikilvægi þeirra þegar fréttir bárust af björgunarstarfi þeirra um allt land, oft við erfiðar aðstæður. Við erum þakklát fyrir ómetanlegt framlag þeirra og að þau tryggi sitt fólk og sína hagsmuni hjá okkur. Við erum ennfremur stolt af því að vera aðalstyrktaraðili Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og eiga þess þannig kost að styðja við þeirra mikilvæga starf með öflugum hætti.