Inngangur

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) er hlutafélag sem stofnað var 20. júní 2009. Félagið er vátryggingafélag og starfar samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995, lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 og lögum um vátryggingasamstæður nr. 60/2017.

Stjórnarháttayfirlýsing 2018

Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 79/2008 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Sjóvá samstæðan starfar á vátryggingamarkaði og er alhliða vátryggingafélag með starfsemi á Íslandi á sviði skaða- og líftrygginga.

Starfsemi Sjóvár er fjölbreytt og þjónustan yfirgripsmikil en félagið býður tryggingavernd á öllum sviðum til fleiri en 8.000 lögaðila og yfir 70.000 einstaklinga hér á landi. Viðskiptavinum í vildarþjónustunni Stofni er boðið upp á ýmsa virðisaukandi þjónustuþætti, svo sem vegaaðstoð, endurgreiðslu hluta af iðgjöldum, fjölþættar vildir í tjónaþjónustu og betri kjör á tryggingum. Í árslok 2018 störfuðu 183 starfsmenn hjá Sjóvá í 177 stöðugildum. Sjóvá hefur á að skipa 22 úti­búum og þjón­ustu­skrif­stofum víðs vegar um landið og leggur kapp á að þjón­usta félags­ins sé öllum aðgengi­leg.

Félagið fylgir reglum um stjórnarhætti sem fjallað er um í lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög, lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerð um vátryggingastarfsemi nr. 940/2018 . Stjórn félagsins endurnýjaði starfsreglur sínar þann 15.febrúar 2018 og eru þær aðgengilegar á sjova.is. Stuðst var við leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins útgefnum í maí 2015 við ritun stjórnarháttayfirlýsingarinnar.

Innra eftirlit og áhættustýring

Sjóvá lýtur eftirliti FME og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta félagsins og sett sér áhættustefnu sem lýsir umgjörð samhæfðrar áhættustýringar. Áhættustefnan tekur til allra áhættuþátta sem krafist er í lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerð um vátryggingastarfsemi. Stefnan var síðast endurnýjuð 11. desember 2018.

Stjórnkerfi og skipulag félagsins eru skráð í gæðakerfi þess. Leiðbeiningar fyrir starfsmenn félagsins miða að því að hver og einn beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu félagsins og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur félagsins og eru innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar reglulega.

Félagið leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Uppbygging Sjóvár á eigin starfsemi er í samræmi við þrjár varnarlínur innra eftirlits. Unnið er að því að taka saman heildstætt yfirlit um innra eftirlit (e. Assurance map) sem gefur góðar upplýsingar um umfang eftirlits á öllum innri eftirlitsþáttum og gerir kleift að sannreyna niðurstöður og meta eftirlitið og umfang þess. Regluleg skýrslugjöf er varðar afkomu einstakra sviða starfseminnar er mikilvægur þáttur innra eftirlits. Mánaðarlegar skýrslur um rekstrarlega afkomu og fjárfestingar, ársfjórðungslegar skýrslur um áhættustýringu, árlegt eigið áhættu- og gjaldþolsmat og aðrar reglulegar úttektir miða að því að tryggja gagnsæi í starfseminni og auðvelda félaginu að uppgötva og leiðrétta hugsanlegar skekkjur, fylgjast með frávikum og sveiflum í starfseminni og gefa svigrúm til að bregðast við ef áhættuþættir eða breytingar í rekstrarumhverfi gefa tilefni til. Framkvæmdastjórn fundar að jafnaði hálfsmánaðarlega með áhættu- og öryggisnefnd og einstakir framkvæmdastjórar eiga að lágmarki árlegan fund með áhættu- og öryggisnefnd um áhættur þeirra ábyrgðarsviðs, fjalla um hvernig stýringu og eftirliti með áhættum er háttað og meta hvort það sé fullnægjandi.

Starfssvið áhættustjóra, regluvörslu, tryggingastærðfræðings og innri endurskoðanda teljast til lykilstarfssviða samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og skulu þeir einstaklingar sem þeim sinna uppfylla sérstakar kröfur um hæfi og hæfni.

Tryggingastærðfræðingur félagsins hefur reglulegt eftirlit með því að iðgjaldaskrár endurspegli raunverulega vátryggingalega áhættu og séu í samræmi við afkomumarkmið. Tjónaskuld og endurtryggingavernd félagsins eru metnar með reglulegum hætti og þess gætt að þær séu í samræmi við þarfir félagsins og skuldbindingar þess. Auk þessa tekur tryggingastærðfræðingur saman árlega skýrslu fyrir stjórn félagsins um verkefni sem starfssviðið hefur framkvæmt, niðurstöður þeirra ásamt ábendingum.

Hlutverk, framtíðarsýn og vegvísar

Á árinu 2018 var áfram unnið að settum markmiðum um stöðu félagsins til framtíðar. Þau byggja á stefnu sem mörkuð var árið 2013 og byggir hún á skilgreindu hlutverki, framtíðarsýn og vegvísum Sjóvár sem starfsfólk hefur að leiðarljósi í starfi sínu. Hlutverk Sjóvár er „Við tryggjum verðmætin í þínu lífi“.

Framtíðarsýnin er „Sjóvá er tryggingafélag sem þér líður vel hjá“. Vegvísarnir eru leiðbeinandi í öllum ákvörðunum stjórnar og starfsfólks og leggja grunninn að þeirri framtíðarsýn sem unnið er að innan félagsins:

  • Verum á undan – þannig sýnum við frumkvæði
  • Höfum það einfalt – þannig gerum við okkur skiljanleg
  • Segjum það eins og það er – þannig sýnum við heiðarleika
  • Verum vingjarnleg – þannig verður allt fyrirtækið eftirsóknarvert

Reglur, stefnur og samfélagsleg ábyrgð

Stefna samstæðunnar um samfélagslega ábyrgð er sem hér segir: „Við hjá Sjóvá teljum mikilvægt að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið. Með því að haga starfseminni á samfélagslega ábyrgan hátt stuðlum við að arðsemi og vexti til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið, viðskiptavini, hluthafa og starfsmenn. Sjóvá styður og hefur í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum, vinnur markvisst að jafnrétti og jöfnum tækifærum innan félagsins meðal annars með virkri mannréttindastefnu og jafnlaunavottun. Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum eigin starfsemi með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Leitast er við að tryggja að spilling, glæpsamleg starfsemi og peningaþvætti eigi sér ekki stað innan félagsins eða í viðskiptum við það. Vegvísar Sjóvár byggja undir áreiðanleika og gagnsæi starfseminnar. Auk þeirra er starfsfólki uppálagt að fylgja útgefnum siðareglum félagsins sem eru grunnviðmið fyrir góða viðskiptahætti og siðferði í viðskiptum.“ Sjóvá hefur verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð frá árinu 2014. Sjóvá hefur Jafnlaunavottun VR sem staðfestir að í félaginu er virkt jafnlaunakerfi og hefur vottunin verið endurnýjuð árlega frá árinu 2014.

Samfélagslega ábyrg tryggingastarfsemi miðar að því að jafnvægi sé milli iðgjalda og tjóna og að þeir fjármunir sem félaginu er treyst fyrir nægi vel fyrir skuldbindingum. Ef þess er einhver kostur er ákjósanlegast bæði fyrir viðskiptavini og félagið að hindra eða lágmarka tjón. Hjá Sjóvá er unnið að því að takmarka áhættu og tjón með markvissum forvörnum.

Félagið hefur undanfarin ár fylgst með þróun umhverfisvísa og auðlinda í rekstri félagsins og er leitast við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Lögð hefur verið áhersla á að bæta flokkun sorps til endurvinnslu.

Samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar Sjóvár, starfsreglur endurskoðunarnefndar, starfsreglur tilnefningarnefndar, stefna um persónuvernd, stefna um samfélagslega ábyrgð og siðareglur Sjóvár eru aðgengilegar á sjova.is.

Stjórn

Stjórn skal skv. samþykktum félagsins skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum.

Aðalmenn í stjórn Sjóvár eru Erna Gísladóttir, stjórnarformaður, Tómas Kristjánsson, varaformaður, Heimir V. Haraldsson, Hjördís E. Harðardóttir og Ingi Jóhann Guðmundsson. Varamenn í stjórn eru Garðar Gíslason og Kristín Egilsdóttir.

Stjórn Sjóvár telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti er varðar óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Þau Erna, Heimir, Hjördís og Tómas eru óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum. Ingi Jóhann er óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en hann telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti þar sem hann er eigandi og stjórnarmaður í félögum sem eiga beina og óbeina eignarhluti yfir 10% í Sjóvá.

Stjórn fundaði 14 sinnum á árinu 2018.

Erna Gísladóttir

Erna Gísladóttir, stjórnarformaður, fædd 5. maí 1968, til heimilis á Seltjarnarnesi. Erna hefur setið í stjórn Sjóvár frá 20. júní 2009. Hún tók við formennsku stjórnar í júlí 2011.

Tómas Kristjánsson

Tómas Kristjánsson, varaformaður, fæddur 15. nóvember 1965, til heimilis í Reykjavík. Tómas hefur setið í stjórn Sjóvár frá 28. júlí 2011.

Heimir V. Haraldsson

Heimir V. Haraldsson, fæddur 22. apríl 1955, til heimilis í Reykjavík. Heimir hefur setið í stjórn Sjóvár frá 20. júní 2009.

Hjördís E. Harðardóttir

Hjördís E. Harðardóttir, fædd 18. apríl 1964, til heimilis í Reykjavík. Hjördís hefur setið í stjórn Sjóvár frá 29. apríl 2014.

Ingi Jóhann Guðmundsson

Ingi Jóhann Guðmundsson, fæddur 12. janúar 1969, til heimilis í Garðabæ. Ingi Jóhann hefur setið í stjórn Sjóvár frá 28. júlí 2011.

Varamenn í stjórn

Garðar Gíslason, fæddur 19. október 1966, til heimilis í Garðabæ. Hann hefur verið varamaður í stjórn Sjóvár frá 30. september 2011.

Kristín Egilsdóttir, fædd 3. febrúar 1968, til heimilis í Kópavogi. Kristín hefur verið varamaður í stjórn Sjóvár frá 11. mars 2016.

Stjórnin fundar að jafnaði mánaðarlega og að lágmarki 10 sinnum á ári. Stjórn Sjóvár telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti er varðar óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Þau Erna, Heimir, Hjördís og Tómas eru óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum. Ingi Jóhann er óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en hann telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti þar sem hann er eigandi og stjórnarmaður í félögum sem eiga beina og óbeina eignarhluti yfir 10% í Sjóvá.

Stjórn Sjóvár fundaði 14 sinnum á árinu 2018 og voru stjórnarfundir fullskipaðir stjórnarmönnum að þremur frátöldum þar sem einn stjórnarmaður forfallaðist og sat annar varamanna einn þeirra funda.

Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf.

Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf., dótturfélags Sjóvár, skipa Hermann Björnsson, stjórnarformaður, Hafdís Böðvarsdóttir löggiltur endurskoðandi og Heiðrún Lind Marteinsdóttir lögmaður. Varamenn í stjórn eru Elín Þórunn Eiríksdóttir framkvæmdastjóri tjóna og Grétar Dór Sigurðsson, lögmaður. Hafdís, Heiðrún og Grétar teljast óháð Sjóvá lífi, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum. Stjórn Sjóvár lífs átti 7 fundi á árinu 2018.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Í 108. gr. kveður á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd Sjóvár er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn félagsins. Hlutverk nefndarinnar er einkum að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Endurskoðunarnefndir Sjóvár og Sjóvár lífs skipa Kristín Egilsdóttir formaður, Friðrik S. Halldórsson og Sigrún Guðmundsdóttir. Nefndarmenn eru óháðir Sjóvá og Sjóvá lífi.

Endurskoðunarnefnd fundar að lágmarki ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir. Nefndin átti 11 fundi árið 2018.

Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd markar starfskjarastefnu sem miðar að því að félagið sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Starfskjarastefnu skal endurskoða árlega og skal greiða atkvæði um hana á hverjum aðalfundi. Starfskjaranefnd er skipuð öllum stjórnarmönnum og átti nefndin tvo fundi á árinu.

Tilnefningarnefnd

Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu fyrir aðalfund félagsins. Skal nefndin vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að rækja hlutverk sitt. Nefndinni ber einnig að leggja mat á hvort frambjóðendur séu óháðir gagnvart félaginu eða hluthöfum sem eiga 10% hlut í félaginu eða meira. Tilnefningarnefnd er skipuð þremur nefndarmönnum, Katrínu Óladóttur, nefndarformanni, Jóni Birgi Guðmundssyni og Vilborgu Lofts sem kjörin voru á hluthafafundi 26. október 2018. Nefndin átti einn fund á árinu.

Áhættu- og öryggisnefnd

Hlutverk nefndarinnar er að vera stjórn félagsins til stuðnings við greiningu og stýringu á þeim áhættum sem félagið stendur frammi fyrir. Áhættu- og öryggisnefnd hefur einnig yfirumsjón með því að unnið sé að samhæfðri áhættustýringu. Nefndin skal hafa yfirsýn yfir virkni gæðakerfis og að öryggismál séu ávallt í takti við þarfir félagsins og uppfylli lög og reglur.

Stjórnendur

Skipurit samstæðu

Starfsemi Sjóvár er skipt upp í þrjú meginsvið sem eru fjármál og þróun, sala og ráðgjöf og tjón. Áhættustýring, regluvarsla, hagdeild, fjárfestingar, mannauður og trygginga- og tölfræðigreining heyra beint undir forstjóra. Allri daglegri starfsemi dótturfélagsins Sjóvár lífs er útvistað til móðurfélagsins. Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og framkvæmdastjórar þriggja meginsviða félagsins. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er staðgengill forstjóra og einnig framkvæmdastjóri Sjóvár lífs sem og annarra dótturfélaga samstæðunnar.

Forstjóri

Hermann Björnsson hefur verið forstjóri Sjóvár frá október 2011.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn félagsins er skipuð eftirfarandi starfsmönnum þar sem hver og einn framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu ábyrgðarsviði gagnvart forstjóra.

Hermann Björnsson

Hermann Björnsson, fæddur 15. febrúar 1963 til heimilis í Reykjavík. Hermann hefur verið forstjóri Sjóvár frá október 2011.

Ólafur Njáll Sigurðsson

Ólafur Njáll Sigurðsson, fæddur 22. maí 1958, til heimilis í Reykjavík, er framkvæmdastjóri fjármála og þróunar og staðgengill forstjóra. Ólafur Njáll hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 2009.

Auður Daníelsdóttir

Auður Daníelsdóttir, fædd 18. júní 1969, til heimilis á Seltjarnarnesi, er framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Hún var framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár frá 2007-2017 og áður starfsmannastjóri frá 2002.

Elín Þórunn Eiríksdóttir

Elín Þórunn Eiríksdóttir, fædd 15. desember 1967, til heimilis í Hafnarfirði, er framkvæmdastjóri tjónasviðs. Hún var áður framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar Sjóvár frá 2012 og síðar viðskiptaþróunar og rekstrar og þróunar.

Niðurlag

Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn Sjóvár eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti félagsins til viðskiptavina, hluthafa, eftirlitsaðila og annarra hlutaðeigandi.

Staðfest af stjórn Sjóvá-Almennra trygginga hf.

15. febrúar 2019