Ársskýrsla

Sjóvá 2018

Helstu lykiltölur

Eigin iðgjöld

17218m.kr.

10,8%

Eigin tjón

13087m.kr.

10,0%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

1631m.kr.

40,8%

Eiginfjárhlutfall

31,3%

Ávöxtun eigin fjár

4,5%

Gjaldþolshlutfall

1,56

4,88%

Samsett hlutfall

Á árinu 2018 hélt vátryggingareksturinn áfram að styrkjast og var samsett hlutfall 97,4% samanborið við 99,4% árið áður.

 • Tjónahlutfall
 • Endurtryggingahlutfall
 • Kostnaðarhlutfall

Erna Gísladóttir stjórnarformaður

Vátryggingareksturinn stendur nú mun styrkari fótum en áður, ánægja viðskiptavina hefur aukist svo um munar og helst í hendur við aukna starfsánægju.

Rekstur Sjóvár var með ágætum árið 2018.  Afkoma vátryggingarekstrarins styrktist áfram við krefjandi aðstæður og vóg upp á móti tapi af fjárfestingarstarfsemi. Afkoma af fjárfestingum var undir væntingum en aðstæður á markaði voru okkur ekki hagfelldar á árinu. Fjárfestingareignir eru nú sem fyrr traustar og vel dreifðar.

Á aðalfundi félagsins 2018 var samþykkt heimild til handa stjórn til kaupa á eigin bréfum með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Stjórn félagsins tók á grundvelli fyrrgreindrar heimildar ákvörðun um endurkaupaáætlun og keypti félagið eigin bréf að nafnverði rúmar 35,6 m.kr. en endurkaupum var hætt þann 12. nóvember 2018. Fyrir fundinum liggur tillaga um breytingar á samþykktum um lækkun hlutafjár félagsins til jöfnunar eigin hluta í samræmi við markmið endurkaupanna.

Stjórn leitar nú eftir nýrri heimild aðalfundar fyrir kaupum á allt að 138 milljón eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar á árinu 2019. Markmið með endurkaupaáætlun er líkt og áður að lækka hlutafé félagsins.

Líkt og gefið var út við skráningu félagsins á markað er stefna stjórnar að félagið sé arðgreiðslufélag og eru forsendur fyrir arðgreiðslu þær að félagið haldist fjárhagslega sterkt. Aðalfundur samþykkti arðgreiðslu til hluthafa sem nam 1.500 milljónum króna fyrir árið 2017. Arðurinn var greiddur út í mars á síðasta ári. Stjórnin leggur nú til að greiða út arð sem nemur 0,47 kr. á hlut eða um 650 milljónum króna fyrir árið 2018 sem verður greiddur út nú í marslok ef tillagan fær brautargengi. Félagið er eftir sem áður fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,49 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu sem er vel yfir þeim viðmiðum sem sett hafa verið um fjárhagsstöðu Sjóvár,  stöðugleika í rekstrinum og áhættuvilja stjórnar.

Hluthafahópur Sjóvár taldi 983 hluthafa í  febrúar sl. og áttu erlendir aðilar og sjóðir þá um 14% í félaginu. Nokkur viðskipti hafa verið með hlutabréf Sjóvár líkt og áður og bjóðum við nýja hluthafa velkomna.

Í kjölfar viljayfirlýsingar sem samþykkt var á síðasta aðalfundi var haldinn hluthafafundur í október síðastliðnum. Á fundinum voru samþykktar tillögur um breytingar á samþykktum félagsins sem lutu að því að stofna tilnefningarnefnd í félaginu, auk þess sem samþykktar voru starfsreglur fyrir nefndina og kosið í hana. Í leiðbeiningum um stjórnarhætti hafa undanfarin ár verið gerðar kröfur um slíkar nefndir og umræðan um hlutverk þeirra og virkni hefur á undanförnu ári verið áberandi. Nefndin tók fljótlega til starfa og fyrir þessum fundi liggur fyrsta skýrsla hennar auk tillögu að samsetningu stjórnar félagsins.

Starfsemi Sjóvár hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum misserum og standa nú fyrir dyrum umfangsmiklar breytingar enda er starfsumhverfið lifandi og kröfur samfélagsins til þjónustunnar í samræmi við almenna tækniþróun. Ríkari kröfur um gott aðgengi að vörum og þjónustu á netinu og rafræn samskipti ýta undirstafræna þróun í nútíð og framtíð. Svara þarf þörfum dagsins í dag um leið og horft er  til framtíðar, ávallt með það að leiðarljósi að viðskiptavinir upplifi framúrskarandi þjónustu. Fyrstu vörurnar í stafrænu vöruborði Sjóvár lofa góðu, en í lok síðasta árs var sett í loftið og kynnt sala og ráðgjöf líf- og sjúkdómatrygginga með rafrænum hætti og hefur hún þegar sannað gildi sitt og fengið góðar móttökur hjá viðskiptavinum. Enn eykst rafræn skráning tjóna og stendur sú lausn vel undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar um að auðvelda viðskiptavinum ferlið og bæta þjónustuna.

Það hefur verið gaman að fylgjast með og taka þátt í þróun félagsins þau ár sem ég hef setið í stjórninni. Margt hefur breyst á þeim tíma þó enn byggi starfsemin á þeim mikla styrk sem felst í áratuga reynslu og sérþekkingu starfsfólks á tryggingamarkaðinum, vilja til að þróast og styrkjast með samfélaginu og aðlaga rekstur og þjónustuframboð til að svara kalli viðskiptavina. Árið sem ég tók við formennsku stjórnar var stærstur hluti ríkisins í félaginu seldur þeim langtíma kjölfestufjárfestum sem fylgt hafa félaginu í gegnum endanlega sölu ríkishluta, skráningu félagsins á markað og styrkingu innviða og rekstrar.

Miklar breytingar hafa orðið í regluumhverfi tryggingafélaga sem flestar hverjar byggja á alþjóðlegum tilskipunum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Innleiðing regluverks, framkvæmd þess og eftirlit kallar oft á mjög íþyngjandi ráðstafanir af hálfu eftirlitsskyldra aðila eins og Sjóvár. Á það hefur ítrekað verið bent að eftirlitsaðilar gangi ekki lengra en þörf krefur í sínu eftirlitshlutverki. Kostnaður vegna aukinna krafna regluumhverfisins hefur á undanförnum árum aukist verulega, bæði innri kostnaður Sjóvár sem og útlagður kostnaður til eftirlitsaðila.

Eftirlitið þarf að vera nægjanlegt og hæfilegt en gæta þarf þess að umfangið leiði ekki til þess að íslenskir neytendur þurfi að greiða hærra iðgjald sökum kostnaðar við eftirlit úr hófi því það getur sannarlega veikt samkeppnisstöðu.

Með ráðningu forstjóra í september 2011 hófst endurskipulagning og ný sókn félagsins og hefur að sönnu vel tekist til. Unnið hefur verið eftir skýrri og vel markaðri stefnu um aukna hagkvæmni í rekstri og aukið virði þjónustunnar og hefur starfsfólk Sjóvár allt tekið virkan þátt í stefnumótunarvinnunni, nú síðast í vetur. Stefnan er starfsfólksins og er eftirtektarvert hve vel innleiðingu nýrrar stefnu er tekið. Stjórn hefur fundist aðdáunarvert hve viðhorf til breytinga er jákvætt og sameiginlegur skilningur starfsfólks á því að aðlaga þurfi reksturinn að breyttu samfélagi.

Á 100 ára afmælisári starfseminnar sem nú er nýliðið hefur Sjóvá verið valið fyrirtæki ársins í vinnumarkaðskönnun VR sem er sú umfangsmesta og stærsta á Íslandi og var Sjóvá efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni í annað sinn frá því mælingar hennar hófust fyrir um tveimur áratugum. Sjóvá hefur verið í fararbroddi við að innleiða jafnlaunakerfi og hljóta jafnlaunavottun og kynjahlutföll sýna jafnvægi kynja hvarvetna.

Vátryggingareksturinn stendur nú mun styrkari fótum en áður, ánægja viðskiptavina hefur aukist svo um munar og helst í hendur við aukna starfsánægju. Vegferð í starfrænni þróun er komin vel á veg og spennandi að sjá hvernig fram vindur á þeim vettvangi.

Það hefur verið gaman og gefandi að taka þátt í endurreisn Sjóvár. Það má með sanni segja að félagið hafi náð fyrri styrk og ég tel það eiga bjarta framtíð fyrir höndum. Mér er efst í huga þakklæti til Hermanns forstjóra, starfsfólks og framkvæmdastjórnar fyrir góð störf, til samstjórnarmanna fyrir afar farsælt samstarf sem aldrei hefur borið skugga á og til viðskiptavina fyrir tryggð þeirra við félagið. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar á þeim spennandi tímum sem framundan eru á vátryggingamarkaði.

Hermann Björnsson forstjóri

Það má því segja að rekstur Sjóvár standi á traustum grunni og að áframhaldandi heilbrigður iðgjaldavöxtur, öflugt áhættumat og forvarnir muni styrkja reksturinn enn frekar.

Vátryggingarekstur heldur áfram að styrkjast á milli ára þrátt fyrir að liðið ár hafi verið sérlega þungt af stærri tjónum og var afkoman af vátryggingarekstri betri en annars stefndi í. Markviss iðgjaldavöxtur samhliða agaðri iðgjaldasetningu skilaði 97,4% samsettu hlutfalli samanborið við 99,4% árið 2017 sem er sérstaklega ánægjuleg niðurstaða í krefjandi aðstæðum á vátryggingamarkaði á árinu. Góð afkoma af vátryggingarekstri vegur þannig upp á móti afkomu af fjárfestingarstarfsemi sem var undir væntingum á liðnu ári. Þegar litið er til baka er mjög mislangt á milli stórra tjóna. Í tryggðum  brunum okkar á Íslandi urðu til dæmis sex stór tjón á árunum 1999 til 2005, síðan ekkert í tíu ár en frá 2014 til dagsins í dag hafa þau verið sex. Í þeirri tryggingagrein er meðaltal sl. sex ára eitt á ári og við gerum ráð fyrir þeirri tíðni í okkar áætlunum en 20 ára meðaltal er um 0,6. Á síðasta ári urðu hins vegar þrír stórbrunar.

Eigin iðgjöld jukust umfram eigin tjón á árinu 2018 sem er afar jákvæð þróun sem átt hefur sér stað undanfarin tvö ár og rennir styrkum stoðum undir bættan vátryggingarekstur. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta var 1.631 m.kr. árið 2018 sem er 41% aukning frá fyrra ári þegar hagnaðurinn var 1.158 m.kr. en það ár hafði hagnaður af vátryggingastarfsemi hækkað um 79%. Afkoma af fjárfestingarstarfsemi dregur niður heildarafkomu ársins 2018 og var töluvert undir væntingum á árinu. Það skýrist fyrst og fremst af tapi á skráðum og óskráðum hlutabréfum en skuldabréf skiluðu einnig lægri ávöxtun en vænst var. Afkoma af fjárfestingarstarfsemi var neikvæð um 679 m.kr. á árinu.

Við þessar aðstæður, þ.e. þegar fjárfestingartekjur dragast saman, er ánægjulegt að vátryggingarekstur skili bættri afkomu. Markmið stjórnenda eru áfram þau að vátryggingarekstur til lengri tíma skili 95% samsettu hlutfalli að jafnaði og í birtum horfum fyrir þetta ár reiknum við með því að samsett hlutfall verði um 95%. Það má því segja að rekstur Sjóvár standi á traustum grunni og að áframhaldandi heilbrigður iðgjaldavöxtur, öflugt áhættumat og forvarnir muni styrkja reksturinn enn frekar. Gjaldþolshlutfallið er sterkt og vel yfir viðmiðunarmörkum og innan áhættuvilja stjórnar.

Árið 2018 var viðburðaríkt ár sem markaði 100 ára sögu starfsemi félagsins en Sjóvátryggingarfélag Íslands, forveri Sjóvár, var stofnað 20. október 1918. Sjóvá mældist efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni annað árið í röð og rammar inn þá góðu vegferð sem við höfum verið á. Metnaðarfull og vel skilgreind markmið sem allir starfsmenn tóku þátt í að móta og hafa unnið eftir undanfarið hafa skilað frábærum árangri. Jafnhliða því er starfsandi hér og helgun starfsmanna með því allra hæsta sem mælist á landsvísu samkvæmt könnunum Gallup.

Í þjónustufyrirtæki eins og Sjóvá liggja gríðarleg verðmæti í því að ánægja viðskiptavina og starfsmanna mælist eins há og raun ber vitni. Þar liggur lykillinn að árangri og aðgreiningu á markaði. Ég er ekki í vafa um að styrkur okkar í framlínu og þjónustu hefur undirbyggt þann jákvæða iðgjaldavöxt sem náðst hefur á árinu, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði.

Mikið er lagt upp úr forvarnarstarfi hjá okkur. Undanfarin ár höfum við fundað með ólíkum faghópum eins og útgerð, bílaleigum og hópferðabílstjórum. Þar deilum við þeirri þekkingu sem við höfum og reynslu af þeim tjónum sem henda hverju sinni auk þess sem þekkingar er aflað frá þessum sömu fagaðilum sem geta gagnast okkur og öðrum innan sama geira í forvörnum. Helstu áskoranir okkar og tækifæri til framtíðar felast í að vinna þétt í öflugu samstarfi með viðskiptavinum okkar í þeim tilgangi að fækka tjónum. Það er allra hagur.

Í upphafi árs réðum við til okkar erlendan ráðgjafa í þeim tilgangi að varða okkur leið í stafrænni þjónustu til næstu tveggja ára. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref samkvæmt þessari áætlun og undir lok árs buðum við, fyrst íslenskra tryggingafélaga, sölu og ráðgjöf á líf- og sjúkdómatryggingum sem fer alfarið fram á netinu. Opnast þannig nýjar leiðir í sölu, markaðssetningu og samtali við viðskiptavini sem þróaðar verða áfram á næstunni.

Með nýrri tækni gefst okkur tækifæri til að veita viðskiptavinum okkar betri þjónustu og auka vöruframboð okkar. Það er óhjákvæmilegt að á næstu misserum munum við sjá umtalsverðar breytingar í þessum geira sem hefur til þessa verið frekar íhaldssamur og ekki tekið jafn hröðum breytingum og t.d. bankakerfið. Við munum hins vegar leggja áfram áherslu á að viðskiptavinurinn geti notið þjónustu okkar með þeim hætti sem hann kýs og að tæknin sé notuð honum til hagsbóta og ekki síður til að auðvelda okkur starfsfólki vinnuna á hverjum tíma.

Við höfum verið að skapa okkur aukna sérstöðu með betri samskiptum, frábærum starfsanda og ástríðu sem smitar út frá sér til viðskiptavina. Aukin sjálfvirkni og innleiðing á nýrri tækni mun auðvelda okkur lífið og opna alveg ný tækifæri í samskiptum. Árangurinn liggur þó ekki eingöngu í betri kerfislausnum heldur fyrst og fremst í því mannlega, í viðmótinu og gæðum þjónustunnar. Kerfi og stafrænar lausnir munu auðvelda okkur lífið en þar mun aðgreiningin ein og sér ekki liggja. Við erum vel í stakk búin til að takast á við þær breytingar sem framundan eru á vátryggingamarkaði með sterkum vátryggingarekstri og öflugum liðsmönnum.

Það er ljóst að tveir stjórnarmenn munu ekki gefa kosta á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þau eru Erna Gísladóttir formaður stjórnar sem verið hefur í stjórn í 10 ár og Tómas Kristjánsson varaformaður sem hefur verið í stjórn í 8 ár. Það er ljóst að með brotthvarfi þeirra á sér stað veruleg breyting á stjórn. Þau hafa verið virk í sínum störfum og veitt jákvætt aðhald til stjórnenda en fyrst og fremst verið Sjóvá miklir bakhjarlar með þekkingu sinni og reynslu.

Ég vil persónulega og fyrir hönd Sjóvár þakka þeim af heilum hug fyrir frábært samstarf í alla staði sem bæði ég og félagið höfum notið góðs af.

Einnig vil ég þakka allri stjórninni fyrir afar gott samstarf um leið og ég vænti þess sama af nýrri stjórn sem kosin verður. Starfsfólki þakka ég samstarfið og metnaðinn til að gera vel í starfi og þjónustu við okkar góðu viðskiptavini sem ég þakka þeirra viðskipi á árinu og tryggð við Sjóvá.

Sjóvá efst tryggingafélaga í ánægjuvoginni, annað árið í röð

Sjóvá mældist árið 2018 í annað sinn efst tryggingafélaga í ánægjuvoginni. Við erum þakklát okkar viðskiptavinum góða niðurstöðu og þeirri vinnu alls starfsfólks sem liggur að baki. Við höfum lagt okkur fram um að auka frumkvæði gagnvart viðskiptavinum okkar og höfum samband til þess að bjóða ráðgjöf og aðlaga verndina. Við höfum gert tryggingar aðgengilegri og skiljanlegri í öllum okkar samskiptum ásamt því að gera forvarnir okkar virkari og sýnilegri. Við höfum einfaldað og bætt framsetningu á vefnum og aukið upplýsingagjöf og aðgengi á Mínum síðum viðskiptavina.

Sjóvá 1918-2018

Á þessu ári fagnar Sjóvá 100 ára afmæli fyrsta tryggingaskirteinisins, en það var gefið út þann 15. febrúar 1919. Fé­lagið tryggði vör­ur í flutn­ingi fyr­ir Jó­hann Ólafs­son & Co., fyrir allt að 50.000 krón­ur með gufu­skipi og allt að 10.000 krón­ur með segl- eða mótor­skipi.

Stofnun Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. var fyrsta skrefið sem stigið var hér á landi af einstaklingum, til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Stofnendur þess voru aðilar sem töldu nauðsynlegt að færa verslun og viðskipti inn í landið og veita erlendu félögunum innlenda samkeppni.

Eins og nafn félagsins ber með sér var fyrsta markmið þess að taka að sér sjóvátryggingar, bæði skipatryggingar og farmtryggingar. Smám saman færði félagið þó út kvíarnar og varð fljótlega alhliða vátryggingafélag.

Rætur Sjóvár má rekja til stofnunar Sjóvátryggingarfélagsins árið 1918 og síðar Almennra trygginga sem stofnaðar voru 1943. Þau félög sameinuðust í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. árið 1989. Samnefnt félag var svo stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 og er það í daglegu tali nefnt Sjóvá.

 1. 1918

  Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. stofnað.

  timalina-1918.jpg
 2. 1934

  Sjóvá hefur sölu líftrygginga, fyrst íslenskra vátryggingafélaga.

  timalina-1934.jpg
 3. 1943

  Almennar tryggingar hf. stofnaðar.

  timalina-1943.jpg
 4. 1989

  Sjóvá-Almennar tryggingar hf. verða til við samruna Sjóvátryggingarfélagsins og Almennra trygginga.

  timalina-1989.jpg
 5. 1995

  STOFN, heildarlausn fyrir vátryggingar heimilisins, kynntur til sögunnar.

  timalina-1995.jpg
 6. 1996

  Sjóvá kaupir Húsatryggingar Reykjavíkur og Ábyrgð.

  timalina-1996.jpg
 7. 2000

  Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skráðar á Aðallista Verðbréfaþings Íslands.

  timalina-2000-01.jpg
 8. 2003

  Sjóvá er afskráð af Verðbréfaþingi. Félagið tekur við rekstri Sameinaða líftryggingafélagins og breyta nafni þess í Sjóvá-Almennar líftryggingar.

  timalina-2003.jpg
 9. 2008

  Sjóvá býður viðskiptavinum í Stofni endurgjaldslausa vegaaðstoð í tilefni 90 ára afmælis.

  timalina-2008.jpg
 10. 2009

  Nýtt félag er stofnað sem tekur yfir vátryggingareksturinn.

  timalina-2009.jpg
 11. 2011

  Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar eignast meirihluta í félaginu.

  timalina-2011.jpg
 12. 2014

  Hlutabréf í Sjóvá tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

  timalina-2013.jpg
 13. 2017

  Sjóvá efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni.

  timalina-2017.jpg
 14. 2018

  Sjóvá efst í Ánægjuvoginni annað árið í röð. Við gleðjumst yfir því að viðskiptavinir okkar séu ánægðari.

  SJ_LifogSjuk2018_OK-7396.jpg

Farsælt samstarf með Landsbjörgu

Sjóvá tryggir björgunarsveitarfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar um allt land ásamt því að tryggja eignir og búnað sveitanna. Sjóvá hefur verið bakhjarl Landsbjargar allt frá stofnun þeirra árið 1999 en félögin vinna náið saman að margskonar forvarna- og öryggisverkefnum. Hjá björgunarsveitunum eru meira en 4.200 sjálfboðaliðar tilbúnir að bregðast við útköllum allan ársins hring, nótt sem dag.

Í ár eru níutíu ár frá því að Slysavarnafélag Íslands, forveri Landsbjargar, var stofnað. Við erum þakklát fyrir það fórnfúsa og mikilvæga starf sem Slysavarnafélagið og Landsbjörg hafa unnið í þágu þjóðarinnar í níutíu ár og erum stolt af samstarfinu.