Ársskýrsla

Sjóvá 2017

Helstu lykiltölur

Iðgjöld ársins

16383m.kr.

6,4%

Tjón ársins

12160m.kr.

8,0%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

1158m.kr.

79,3%

Eiginfjárhlutfall

35,1%

Ávöxtun eigin fjár

10,7%

SCR gjaldþol

1,64

14,14%

Samsett hlutfall

Samsett hlutfall samstæðunnar var 99,4% samanborið við 100,9% árið 2016.

 • Tjónahlutfall
 • Endurtryggingahlutfall
 • Kostnaðarhlutfall

Erna Gísladóttir stjórnarformaður

Mannauðurinn, reynslan, þekkingin og krafturinn sem býr í Sjóvá er félagsins helsti styrkur, nú þegar félagið tekst á við fjölbreytt framtíðarverkefni og fagnar 100 ára sögu starfseminnar.

Rekstur Sjóvár var með ágætum árið 2017. Það er ánægjulegt að afkoma vátryggingarekstrar styrktist þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Afkoma af fjárfestingum var viðunandi að teknu tilliti til aðstæðna á markaði á árinu. Fjárfestingareignir eru traustar og vel dreifðar.

Á aðalfundi félagsins 2017 var samþykkt heimild til handa stjórn til kaupa á eigin bréfum með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Stjórn félagsins tók á grundvelli fyrrgreindrar heimildar ákvörðun um endurkaupaáætlun og keypti félagið eigin bréf að nafnverði 65 m.kr. en endurkaupum var hætt þann 2. nóvember 2017. Fyrir fundinum liggur tillaga um breytingar á samþykktum um lækkun hlutafjár félagsins til jöfnunar eigin hluta í samræmi við markmið endurkaupanna.

Stjórn leitar nú eftir nýrri heimild aðalfundar fyrir kaupum á allt að 142 milljón eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar á árinu 2018. Markmið með endurkaupaáætlun er líkt og áður að lækka hlutafé félagsins.

Líkt og gefið var út við skráningu félagsins á markað er stefna stjórnar að félagið sé arðgreiðslufélag og eru forsendur fyrir arðgreiðslu þær að félagið haldist fjárhagslega sterkt. Aðalfundur samþykkti arðgreiðslu til hluthafa sem nam 2.600 milljónum króna fyrir árið 2016. Arðurinn var greiddur út í mars á síðasta ári. Stjórnin leggur nú til að greiða út arð sem nemur 1,05 kr. á hlut eða um 1.500 milljónum króna fyrir árið 2017 sem verður greiddur út í lok mars nk. ef tillagan fær brautargengi. Félagið er eftir sem áður fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,48 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu, sem er vel yfir þeim viðmiðum sem sett hafa verið um fjárhagsstöðu Sjóvár og stöðugleika í rekstrinum.

Hluthafahópur Sjóvár taldi 1.084 hluthafa þann 1. mars sl. og eiga erlendir aðilar og sjóðir um 12% í félaginu. Lífleg viðskipti eru með hlutabréf Sjóvár líkt og áður og bjóðum við nýja hluthafa velkomna.

Komin eru fram drög að frumvarpi um breytingu á skaðabótalögunum. Ljóst er að ef frumvarpið nær fram að ganga mun það leiða af sér töluverða hækkun á tjónakostnaði sem mun þurfa að koma fram í iðgjöldum.  Sjóvá hefur komið á framfæri sjónarmiðum sínum um frumvarpið í gegnum Samtök fjármálafyrirtækja (SFF). Við viljum vekja athygli á að fyrirkomulag við mat á örorku og viðmið við greiðslu bóta vegna varanlegrar örorku eru önnur hér á landi en í nágrannalöndunum. Sem dæmi má nefna Danmörku þar sem ekki eru greiddar út bætur fyrir varanlega örorku sem nemur minna en 15 prósentum. Rökin fyrir því fyrirkomulagi eru þau að aðlögunarhæfni fólks geri það að verkum að ekki eru líkur á að lægri örorka en 15% muni hafa varanleg áhrif á aflahæfi fólks til framtíðar. Hér á landi eru engin slík mörk og rétt að vekja athygli á því að 92% allra mála snúa að tjónþolum með undir 15% örorku auk þess sem 75% bótafjárhæða eru greiddar til þeirra.

Endurbætur á evrópskri persónuverndarlöggjöf sem tekur gildi nú í maí munu hafa fjölþætt áhrif í samfélaginu, ekki síst hjá tryggingafélögum, sem starfsemi sinnar vegna búa yfir margvíslegum upplýsingum sem teljast til persónuupplýsinga. Unnið hefur verið markvisst að því að undirbúa gildistöku laganna sem allra best hjá Sjóvá og búa þannig um hnúta að félagið geti sem best uppfyllt reglugerð um vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga. Um er að ræða flókin og fjölbreytt verkefni sem snúa að upplýsingatæknikerfum, ferlum og verklagi. Endurbætt löggjöf markar tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu enda er hér um að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á henni í tvo áratugi. Í þeirri hröðu þróun sem á sér nú stað í stafrænum heimi eru nýju reglurnar tímabærar því að mörgu að huga þegar leitast er við að tryggja öryggi í þjónustu og meðferð viðkvæmra upplýsinga. Skýrar og samræmdar reglur veita fyrirtækjum einnig réttarvissu um að verið sé að uppfylla ýtrustu kröfur. Þessi undirbúningur að breytingum hefur gengið vel hjá Sjóvá sem byggir nú þegar á öguðu verklagi og markvissu gæðastarfi.

Í stefnu Sjóvár um samfélagslega ábyrgð segir meðal annars að með því að haga starfseminni á samfélagslega ábyrgan hátt stuðli Sjóvá að arðsemi og vexti til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið, viðskiptavini, hluthafa og starfsmenn. Félagið vinnur markvisst að jafnrétti og jöfnum tækifærum innan félagsins, meðal annars með virkri mannréttindastefnu og jafnlaunavottun. Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum af eigin starfsemi með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Allt ofangreint byggir undir jákvæða afkomu og góðar ákvarðanir. Hjá Sjóvá sýna mælikvarðar að vel er fylgst með árangri af stefnunni og hún er síður en svo orðin tóm.

Sjóvá hefur haft Jafnlaunavottun frá árinu 2014. Við endurnýjun á árinu 2017 mældist launamunur milli kynja 1,4% í áttundu úttektinni sem gerð hefur verið á fylgni við jafnlaunastaðalinn frá því hann var tekinn upp hjá félaginu. Tvær úttektir eru gerðar árlega vegna hans og hefur launamunur sveiflast úr 0% í 1,5% milli vottana. Það er ánægjulegt að jafnlaunavottun hefur verið lögfest til að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Hægt hefur þokast í því að eyða óútskýrðum launamun og misræmi í launum í samfélaginu með lögmálum markaðarins einum saman. Lögin gera fyrst kröfu um jafnlaunavottun fyrir félög eins og Sjóvá í lok árs 2019 og það er ánægjulegt að félagið hafi verið í fararbroddi á þessu sviði.

Formanni og forstjóra barst á dögunum ábending frá hluthafa um hvort rétt væri að stjórn komi á laggirnar tilnefningarnefnd eins og þekkt er víða erlendis. Einungis þrjú innlend félög sem skráð eru á markað hafa komið sér upp slíkri nefnd. Á liðnu starfsári var þetta rætt innan stjórnar og var þar ákveðið að endurnýjuð stjórn héldi áfram þeirri umræðu og legði á það mat hvort rétt væri að koma á slíkri nefnd.

Stærstur hluti stjórnar Sjóvár hefur nú komið að stjórn félagsins frá árinu 2011. Eitt af verkefnum fyrstu stjórnarinnar var að gera kröfur um aukna hagkvæmni í rekstrinum á sama tíma og virði þjónustunnar til viðskiptavina væri aukið. Markmiðið er þá sem nú að veita framúrskarandi þjónustu og tryggja hagkvæman rekstur. Starfsemi Sjóvár hefur tekið stakkaskiptum á þessum árum og hefur margt áunnist sem byggir undir áframhaldandi sókn félagsins í krefjandi og spennandi starfsumhverfi. Nú liggur fyrir að gera félagið vel í stakk búið til að takast á við stafræna nútíð og framtíð. Fjármálafyrirtæki líkt og önnur fyrirtæki eru í óða önn við að laga sig að auknum kröfum, miklum hraða á sama tíma og unnið er að því að gera upplifun viðskiptavinarins framúrskarandi. Mannauðurinn, reynslan, þekkingin og krafturinn sem býr í Sjóvá er félagsins helsti styrkur, nú þegar félagið tekst á við fjölbreytt framtíðarverkefni og fagnar 100 ára sögu starfseminnar.

Ég vil fyrir hönd stjórnarinnar þakka stjórnendum og starfsfólki fyrir gott starf á árinu 2017. Við hlökkum til áframhaldandi ánægjulegs samstarfs með starfsfólki og viðskiptavinum Sjóvár.

Hermann Björnsson forstjóri

Vátryggingarekstur hélt áfram að styrkjast við krefjandi aðstæður á árinu 2017 og var samsett hlutfall ársins 99,4% samanborið við 100,9% árið 2016.

Vátryggingarekstur hélt áfram að styrkjast við krefjandi aðstæður á árinu 2017 og var samsett hlutfall ársins 99,4% samanborið við 100,9% árið 2016. Tjónum fækkaði á milli ára um 2% en greidd tjón í upphæðum á árinu 2017 voru 2,6% hærri en árið 2016. Eigin iðgjöld jukust umfram eigin tjón og aðgerðir sem farið var í til að lækka rekstrarkostnað skiluðu sér á árinu og lækkaði kostnaðarhlutfallið  þrátt fyrir kjarasamningsbundnar hækkanir launa. Fjárfestingatekjur eru nokkru lægri en á fyrra ári. Þrátt fyrir það má segja að afkoma af fjárfestingarstarfsemi hafi verið viðunandi, sé litið til þess að verðbréfamarkaðir voru mjög sveiflukenndir á árinu. Það leiddi til þess að þriðji ársfjórðungur skilaði neikvæðri ávöxtun upp á 2,4%. Við þessar aðstæður, þ.e. þegar fjárfestingartekjur minnka, er ánægjulegt að vátryggingarekstur skili bættri afkomu. Bæting frá fyrra ári var á öllum fjórðungum og heildarhagnaður af vátryggingastarfsemi nær tvöfaldaðist á milli ára. Markmið stjórnenda eru áfram þau að vátryggingarekstur til lengri tíma skili 95% samsettu hlutfalli að jafnaði. Í birtum horfum fyrir þetta ár gerum við ráð fyrir því að samsett hlutfall verði 96%. Við höfum beitt okkur fyrir því að FME hlutist til um að vátryggingafélögin birti lykilstærðir sínar í rekstri með samræmdum hætti. Því er ekki til að dreifa nú, sem getur valdið og veldur misskilningi í samanburði milli félaga. Rekstur Sjóvár stendur á traustum grunni og er gjaldþolshlutfallið sterkt og vel yfir viðmiðunarmörkum.

Ökutækjatryggingar skila neikvæðri afkomu líkt og nokkur undanfarin ár. Þrátt fyrir að gripið hafi verið til leiðréttinga í verðlagningu nægir það ekki til að koma afkomunni á þann stað sem við viljum hafa hana, einfaldlega vegna þess að markið hefur stöðugt verið á hreyfingu. Því veldur m.a.  þróun launavísitölu sem vegur mikið vegna líkamstjóna og eins mikil og þörf endurnýjun bílaflotans, en með stöðugt flóknari bílum verða viðgerðir kostnaðarsamari. Einnig hefur umferðarþungi aukist gríðarlega. Umferð um vegi, bæði innan þéttbýlis og utan, hefur aldrei verið meiri en árið 2017. Í desembermánuði einum mældist 5% aukning á umferð frá fyrra ári og 18% meiri umferð en árið þar á undan. Til samanburðar má nefna að umferðin er nú fjórðungi meiri en hún var árið 2007 sem þá var metár. Augljóst er að vegakerfið hefur verið vanfjármagnað undanfarin ár en heildarfjárveitingar til vegakerfisins hafa aldrei verið lægri en síðustu fimm ár, mælt sem hlutfall af landsframleiðslu. Niðurstöður könnunar meðal starfsmanna Vegagerðarinnar og Samgöngustofu og aðila sem starfa í atvinnugreinum tengdum samgöngum um ástand vegakerfisins sýna að 73% aðspurðra telja að ástand vegakerfisins sé fremur slæmt eða mjög slæmt og 93% telja að þörf sé á hærri fjárveitingum til vegakerfisins. Niðurstöður sömu skýrslu benda til þess að niðurskurður útgjalda til viðhalds á vegum muni leiða af sér stórlega aukinn kostnað í framtíðinni.1 Líkur eru á að þessar aðstæður leiði til lakara umferðaröryggis og aukins tjónaþunga. Fjárfesta þarf í innviðum og tryggja nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu á vegakerfinu, bæta merkingar og auka fræðslu og forvarnir. Einnig er nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé vert að fjármagna fjölförnustu leiðir í kringum höfuðborgina með einkaframkvæmdum með sambærilegum hætti og heppnaðist svo vel með Hvalfjarðargöngum.

Þróun stafrænna lausna er verkefni sem stöðugt er til skoðunar, með það að markmiði að gera þjónustuna aðgengilegri og fjölga möguleikum viðskiptavina til að eiga við okkur samskipti. Áfram verður unnið að því að gera vörur og þjónustu einfaldari, sýna frumkvæði í samskiptum við viðskiptavini og bjóða lausnir sem koma til móts við sífellt breyttar þarfir og fjölskyldumynstur. Það er ljóst að slík vegferð krefst fjarfestinga en í þær verður ekki ráðist nema að þær skili betri þjónustu, aukinni framlegð, meiri skilvirkni og betra áhættumati.

Við höfum unnið markvisst að því að gera tryggingar skiljanlegri og fræða um mikilvægi þess að vera vel tryggð. Við munum hvetja til dáða með skýrum forvarnaskilaboðum. Á árinu 2017 settum við í loftið nýtt smáforrit um umferðarmerkin sem nýtur mikilla vinsælda. Við tókum einnig þátt í átaksverkefninu „Vertu snjall undir stýri“ með Landsbjörgu sem beint var að atvinnubílstjórum. Enn er vitundarvakningar þörf um skaðsemi þess að nota snjallsíma undir stýri. Umfangsmikil könnun sem Sjóvá lét framkvæma í sumar leiddi í ljós að 83% framhaldsskólanema notuðu snjallsímana við akstur. Nýlegar rannsóknir sýna að Íslendingar eru sér meðvitaðir um hætturnar sem fylgja þessari hegðun en hegða sér ekki í samræmi við það. Sjóvá er þátttakandi í verkefninu „Höldum fókus“ sem snýst um að vekja athygli á mikilli og almennri símnotkun við akstur og afleiðingum hennar, með það að markmiði að draga úr slysum. Við höfum einnig verið því fylgjandi að þyngja viðurlög við farsímanotkun við akstur til að skerpa enn betur á varnaðaráhrifum. Það er til mikils að vinna fyrir okkur sem samfélag að breyta slíkri hegðun til hins betra.

Aðstæður í efnahagslífinu og samfélaginu í heild hafa verið hagfelldar þó tjónatíðni hafi aukist í takt við hagsveifluna. Þessum aðstæðum fylgja einnig tækifæri til vaxtar. Sjóvá mun taka þátt í þessari jákvæðu þróun með því að fylgja vexti markaðarins, vakta þróun og þarfir viðskiptavina og vera öflugur þátttakandi í samfélaginu.

Nokkuð víðtækar breytingar voru gerðar á skipuriti Sjóvár á árinu og framkvæmdastjórum fækkað úr fimm í þrjá. Þeir þrír framkvæmdastjórar sem fyrir voru tókust á hendur ný verkefni og bættu við sig ábyrgð. Breytingarnar eru liður í einföldun og straumlínulögun stjórnkerfisins og innleiðingu enn flatara stjórnskipulags og styttingu boðleiða. Þessar breytingar byggja á því að við búum að afar sterkum hópi millistjórnenda og sérfræðinga.

Mikið er nú rætt um mikilvægi þess að vinnustaðir endurspegli samfélagið. Lagakröfur um kynjakvóta í stjórnum og tölur sýna að íslenskt atvinnulíf á enn langt í land að ná þessu jafnvægi. Hjá Sjóvá þykir okkur eðlilegt að kynjahlutföll séu jöfn. Í stjórn félagsins sitja nú þrír karlar og tvær konur, í stjórn Sjóvár lífs sitja tvær konur og einn karl og sömu hlutföll eru í endurskoðunarnefnd. Framkvæmdastjórn og stjórnendahópur er samsettur í jöfnu hlutfalli kvenna og karla. Það sem oft vekur furðu okkar er að þetta þyki sérstakt og fólki komi á óvart þessi jöfnu hlutföll. Við höfum hingað til ekki verið að vekja sérstaka athygli á þessum staðreyndum enda á þetta sér þær eðlilegu skýringar að við ráðningar er fyrst og fremst litið til hæfni og styrkleika en einnig fjölbreytileika. Rekstrarniðurstöður jafnt sem aðrir mælikvarðar um ánægju starfsmanna og viðskiptavina sýna okkur að við erum vel mönnuð og vel samsett.

Ný lög um jafnlaunavottun tóku gildi 1. janúar 2018, en Sjóvá hefur haft jafnlaunavottun frá árinu 2014. Við erum stolt af því að frá fyrstu úttekt hefur engra breytinga verið þörf á launum og hefur launamunur mælst nær enginn.

Við hjá Sjóvá erum afar stolt af því að Sjóvá var í fyrsta sinn efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni á árinu 2017. Við erum þakklát okkar viðskiptavinum fyrir þá niðurstöðu en árangurinn er uppskera markvissrar vinnu alls starfsfólks. Við byggjum á stefnu sem stjórnendur og starfsfólk mörkuðu félaginu árið 2013 þar sem markmiðið var skýrt – að Sjóvá ætti ánægðustu viðskiptavini á tryggingamarkaði árið 2018. Leiðin að þessu markmiði hefur ekki aðeins skilað okkur aukinni ánægju viðskiptavina heldur jafnframt aukinni starfsánægju. Það teljum við ekki tilviljun og leggjum mikla áherslu á að viðhalda þeim góða starfsanda sem hér ríkir og mælist með því allra hæsta sem þekkist hér á landi.

Þessi viðurkenning kemur á ánægjulegum tímamótum þar sem félagið fagnar 100 ára sögu starfseminnar í ár. Þá eru jafnframt spennandi tímar framundan og skemmtileg verkefni og áskoranir þar sem viljinn er alltaf fyrir hendi til að gera enn betur í samkeppninni.

Ég vil fyrir hönd Sjóvár þakka öllum viðskiptavinum fyrir það traust sem þeir sýndu félaginu á liðnu ári og ánægjuleg samskipti. Við munum áfram leggja okkur fram að standa undir því trausti og styrkja viðskiptin til framtíðar. Einnig vil ég þakka stjórnarmönnum Sjóvár fyrir gott samstarf á liðnu ári.

1. Vegagerðin

Sjóvá efst tryggingafélaga í ánægjuvoginni

Sjóvá mældist í fyrsta sinn efst tryggingafélaga í ánægjuvoginni fyrir síðasta ár. Við erum þakklát okkar viðskiptavinum góða niðurstöðu og þeirri vinnu alls starfsfólks sem liggur að baki. Við höfum lagt okkur fram um að auka frumkvæði gagnvart viðskiptavinum okkar og höfum samband til þess að bjóða ráðgjöf og aðlaga verndina. Við höfum gert tryggingar aðgengilegri og skiljanlegri í öllum okkar samskiptum ásamt því að gera forvarnir okkar virkari og sýnilegri. Við höfum einfaldað og bætt framsetningu á vefnum og aukið upplýsingagjöf og aðgengi á Mínum síðum viðskiptavina.

Sjóvá 1918-2018

Á þessu ári fagnar Sjóvá 100 ára sögu starfseminnar, en Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað þann 20. október árið 1918. Á þessum árum sveið fólki nokkuð að hér á landi væri ekki starfandi innlent almennt vátryggingafélag, en þegar Sjóvá var stofnað störfuðu hér allmörg erlend vátryggingafélög í gegnum umboðsskrifstofur.

Stofnun Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. var fyrsta skrefið sem stigið var hér á landi af einstaklingum, til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Stofnendur þess voru aðilar sem töldu nauðsynlegt að færa verslun og viðskipti inn í landið og veita erlendu félögunum innlenda samkeppni.

Eins og nafn félagsins ber með sér var fyrsta markmið þess að taka að sér sjóvátryggingar, bæði skipatryggingar og farmtryggingar. Smám saman færði félagið þó út kvíarnar og varð fljótlega alhliða vátryggingafélag.

Rætur Sjóvár má rekja til stofnunar Sjóvátryggingafélagsins árið 1918 og síðar Almennra trygginga sem stofnaðar voru 1943. Þau félög sameinuðust í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. árið 1989. Samnefnt félag var svo stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 og er það í daglegu tali nefnt Sjóvá.

 1. 1918

  Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. stofnað.

  timalina-1918.jpg
 2. 1934

  Sjóvá hefur sölu líftrygginga, fyrst íslenskra vátryggingafélaga.

  timalina-1934.jpg
 3. 1943

  Almennar tryggingar hf. stofnaðar.

  timalina-1943.jpg
 4. 1989

  Sjóvá-Almennar tryggingar hf. verða til við samruna Sjóvátryggingarfélagsins og Almennra trygginga.

  timalina-1989.jpg
 5. 1995

  STOFN, heildarlausn fyrir vátryggingar heimilisins, kynntur til sögunnar.

  timalina-1995.jpg
 6. 1996

  Sjóvá kaupir Húsatryggingar Reykjavíkur og Ábyrgð.

  timalina-1996.jpg
 7. 2000

  Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skráðar á Aðallista Verðbréfaþings Íslands.

  timalina-2000-01.jpg
 8. 2003

  Sjóvá er afskráð af Verðbréfaþingi. Félagið tekur við rekstri Sameinaða líftryggingafélagins og breyta nafni þess í Sjóvá-Almennar líftryggingar.

  timalina-2003.jpg
 9. 2008

  Sjóvá býður viðskiptavinum í Stofni endurgjaldslausa vegaaðstoð í tilefni 90 ára afmælis.

  timalina-2008.jpg
 10. 2009

  Nýtt félag er stofnað sem tekur yfir vátryggingareksturinn.

  timalina-2009.jpg
 11. 2011

  Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar eignast meirihluta í félaginu.

  timalina-2011.jpg
 12. 2014

  Hlutabréf í Sjóvá tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

  timalina-2013.jpg
 13. 2017

  Sjóvá efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni í fyrsta skipti.

  timalina-2017.jpg

Farsælt samstarf með Landsbjörgu

Sjóvá tryggir björgunarsveitarfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar um allt land ásamt því að tryggja eignir og búnað sveitanna. Sjóvá hefur verið bakhjarl Landsbjargar allt frá stofnun þeirra árið 1999 en félögin vinna náið saman að margskonar forvarna- og öryggisverkefnum. Hjá björgunarsveitunum eru meira en 4.200 sjálfboðaliðar tilbúnir að bregðast við útköllum allan ársins hring, nótt sem dag.

Í ár eru níutíu ár frá því að Slysavarnafélag Íslands, forveri Landsbjargar, var stofnað. Við erum þakklát fyrir það fórnfúsa og mikilvæga starf sem Slysavarnafélagið og Landsbjörg hafa unnið í þágu þjóðarinnar í níutíu ár og erum stolt af samstarfinu.