Ársskýrsla

Sjóvá 2016

Helstu lykiltölur

 

 

Iðgjöld ársins

15399m.kr.

9,4%

Tjón ársins

11259m.kr.

0,2%

Afkoma af vátryggingastarfsemi

647m.kr.

238,7%

Eiginfjárhlutfall

40,3%

Ávöxtun eigin fjár

15,9%

SCR gjaldþol

1,91

2,7%

 

Samsett hlutfall

Samsett hlutfall samstæðunnar var 100,9% samanborið við 103,8% árið 2015.

 

  • Tjónahlutfall
  • Endurtryggingahlutfall
  • Kostnaðarhlutfall

 

Erna Gísladóttir stjórnarformaður

Lengi hefur verið unnið eftir jafnréttisstefnu hjá Sjóvá. Jafnlaunavottun var endurnýjuð á árinu og í byrjun árs mældist launamunur milli kynja langt innan þeirra markmiða sem sett hafa verið eða 0%. Við erum stolt af þeim eftirtektarverða árangri sem hefur náðst í að tryggja jöfn tækifæri til kjara og starfsþróunar.

 

 

Rekstur Sjóvár var með ágætum árið 2016. Afkoma af vátryggingarekstri  fór batnandi og afkoma af fjárfestingum var góð.

Aðalfundur 2016 samþykkti nýja heimild til handa stjórn um áframhaldandi kaup á eigin hlutum með framkvæmd endurkaupaáætlunar. Markmiðið með endurkaupaáætlun er að lækka hlutafé félagsins og er nú tillaga gerð um lækkun sem nemur eigin bréfum félagsins. Viðskipti með hlutabréf í Sjóvá voru mun meiri en fyrri ár m.a. vegna vel heppnaðrar sölu ríkisins á sínum hlut. Ánægjulegt var að sjá að eftirspurn er eftir hlutabréfum í Sjóvá og við bjóðum nýja hluthafa velkomna.

Líkt og gefið var út við skráningu félagsins á markað er stefna stjórnar sú að félagið sé arðgreiðslufélag og forsendur fyrir arðgreiðslu að félagið haldist fjárhagslega sterkt. Stjórnin leggur nú til að greiða út arð sem nemur 1,75 kr. á hlut eða um 2.600 milljónum króna fyrir árið 2016 og yrði hann greiddur út í lok mars nk. Félagið er eftir sem áður fjárhagslega sterkt með gjaldþolshlutfall 1,61 eftir fyrirhugaða arðgreiðslu. Það er vel yfir þeim viðmiðum sem sett hafa verið um fjárhagsstöðu Sjóvár og stöðugleika í rekstrinum.

Nýtt regluverk á vátryggingamarkaði, Solvency II, tók gildi í ársbyrjun 2016. Vinna við að aðlaga innri reglur, stefnur og skýrslugjöf að þeim breytingum sem hið nýja regluverk felur í sér er langt komin innan félagsins. Við höfum metnað til þess að vinna af kostgæfni við að uppfylla allar opinberar kröfur og hefur þessi vinna gengið vel. Kröfur Solvency II bera þess merki að hafa verið samdar m.t.t. erlendra tryggingafélaga sem sum hver hafa á að skipa þúsundum starfsmanna. Einnig hefur leitni verið í þá átt að heimfæra regluverk banka yfir á tryggingafélög án sannfærandi rökstuðnings. Við fögnum því að gætt sé vel að stöðugleika, rekstrarhæfi og áhættu á vátryggingamarkaði með víðtækari hætti en áður var gert. Við höfum þó nokkrar áhyggjur af því hve kostnaður við eftirlit hefur aukist á undanförnum árum, með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir viðskiptavini. Nú síðast voru eftirlitsgjöld tryggingafélaga hækkuð um tæp 50%, og fara þau úr 47 m.kr. í 68 m.kr. Leita þarf jafnvægis í því að eftirlit og kröfur eftirlitsaðila séu í samræmi við eðli rekstrar, stærð félaga og markaðarins í heild og líta þarf í ríkara mælis til meðalhófs í því sambandi. Eftirlitið á ekki að vera eftirlitsins vegna heldur ættu neytendasjónarmið og vernd vátryggingataka að vera í fyrirrúmi.

Nokkur tækifæri eru enn ónýtt til að auka gagnsæi á íslenskum tryggingamarkaði. Til dæmis mætti líta til þess að samræma framsetningu á upplýsingum um afkomu af vátryggingastarfsemi tryggingafélaganna en þær eru í dag settar fram með mismunandi hætti og því ekki samanburðarhæfar. Það er okkar trú að það væri neytendum og greiningaraðilum til hagsbóta og til þess fallið að auka gagnsæi og hugsanlega skilning á rekstrinum.

Lengi hefur verið unnið eftir jafnréttisstefnu hjá Sjóvá. Í hópi stjórnenda eru 59% konur og 41% karlar en það eru því sem næst sömu hlutföll og eru í starfsmannahópnum. Jafnlaunavottun Sjóvár var endurnýjuð á árinu og mældist launamunur milli kynja langt innan þeirra markmiða sem sett hafa verið eða 0%. Þetta var sjöunda úttektin á fylgni við jafnlaunastaðalinn frá því hann var tekinn upp hjá félaginu árið 2014. Tvær úttektir eru gerðar árlega vegna hans og hefur launamunur farið úr 1,1% í fyrstu vottun, næst í 1,3% og niður í 0% í mælingu í byrjun árs 2017. Fylgni við starfskjarastefnu er tryggð með virku eftirliti og vel er fylgst með þróun markaðslauna með það að markmiði að bjóða samkeppnishæf laun. Við erum stolt af þeim eftirtektarverða árangri sem hefur náðst í að tryggja jöfn tækifæri til kjara og starfsþróunar.

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjóvár þakka stjórnendum og starfsfólki fyrir gott starf á árinu 2016. Við hlökkum til áframhaldandi ánægjulegs samstarfs með hluthöfum, starfsfólki og viðskiptavinum Sjóvár.

 

Hermann Björnsson forstjóri

Árið 2016 var Sjóvá hagfellt og viðburðaríkt. Við tókum á móti 26 þúsund viðskiptavinum í útibúi okkar í Kringlunni, áttum um 150 þúsund símtöl, tókum á móti rúmlega 31 þúsund tjónstilkynningum, fórum í 2.500 vettvangsskoðanir og bættum tjón fyrir 11,3 milljarða króna sem gerir um 45 milljónir á dag, alla virka daga ársins.

 

 

Rekstur Sjóvár stendur á traustum grunni og er gjaldþolshlutfallið sterkt og vel yfir viðmiðunarmörkum. Þrátt fyrir erfiðan fyrri árshelming 2016 var hagnaður ársins umfram væntingar og samsett hlutfall nálægt þeim horfum sem settar voru fyrir árið. Markmið stjórnenda er eftir sem áður að bæta vátryggingarekstur enn frekar og til lengri tíma að hann skili að jafnaði 95% samsettu hlutfalli.

Afkoma ársins 2016 einkenndist af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna og styrkingu vátryggingarekstrar frá fyrra ári. Tekjur af iðgjöldum jukust töluvert á árinu, í takt við aukin umsvif í þjóðfélaginu og þeim áherslum að laga iðgjöld að tjónatíðni. Gripið var til sértækra aðgerða á árinu til lækkunar á samsettu hlutfalli og skiluðu þær prýðis árangri en þess ber að geta að ekkert stórtjón varð á árinu, ólíkt fyrra ári, sem studdi enn frekar við lækkun hlutfallsins á milli ára. Væntingar eru um að þessar aðgerðir haldi áfram að skila bættri afkomu en þrátt fyrir að tjónahlutfall hafi lækkað er það enn hærra en við teljum ásættanlegt. Hér eftir sem hingað til þarf því að fylgjast grannt með hvert stefnir og bregðast við eins fljótt og unnt er.

Það er bjart yfir efnahagslífinu þessa stundina og allt bendir til að sú staða haldist næstu misseri. Kaupmáttur hefur farið vaxandi með hækkandi launum og styrkingu krónunnar en leita verður aftur til ársins 2005 til að finna viðlíka styrkingu. Einkaneysla hefur vaxið hratt og ólíkt því sem við þekkjum frá fyrri uppsveiflu er nú meira samræmi milli þróunar neyslu og kaupmáttar, en skuldsetning bæði heimila og  fyrirtækja er skv. upplýsingum Seðlabanka lítil í sögulegu samhengi. Útlit er fyrir að heimili og fyrirtæki hafi nýtt hagstæðar aðstæður til að draga úr skuldsetningu og bæta eiginfjárstöðu. Mikill vöxtur í ferðaþjónustu knýr hagvöxt og styrkingu krónunnar að talsverðu leyti, enda komu rúmur þriðjungur útflutningstekna fyrir vöru og þjónustu árið 2016 frá ferðaþjónustunni. Hagvöxtur árið 2016 mældist sá mesti í áratug. Sjóvá verður að taka þátt í þessari jákvæðu þróun með því að fylgja vexti markaðarins, vakta þróun og þarfir viðskiptavina og vera öflugur þátttakandi í samfélaginu. Rekstur ársins 2016 var með ágætum og hefur stjórn því lagt fram tillögu um greiðslu arðs til hluthafa sem eru ánægjuleg tíðindi. Það er eðlilegt að eigendur njóti ávöxtunar þeirra fjármuna sem þeir hafa lagt í reksturinn þegar afkoman er góð.

Aukning á milli ára í umferð um hringveginn í fyrra var sú mesta frá upphafi mælinga. Vísbendingar eru um að sú þróun muni halda áfram. Þessa miklu aukningu má líklega rekja að mestu til aukinnar vetrarferðamennsku innlendra og erlendra ferðamanna, en einnig til meiri umsvifa í hagkerfinu og góðrar færðar á vegum. Því miður hefur alvarlegum umferðarslysum sem ferðamenn lenda í fjölgað hlutfallslega meira en sem nemur fjölgun ferðamanna undanfarin tvö ár. Þetta er þróun sem við eigum ekki að sætta okkur við. Vaxandi tíðni slysa endurspeglar mikilvægi þess að bæta umferðaröryggi. Áætlaður þjóðhagslegur kostnaður vegna umferðarslysa á síðasta ári nam 50 milljörðum króna. Þá er ótalinn einkakostnaður og þar undir falla vátryggingabætur. Fjárfesta þarf í innviðum og tryggja nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu á vegakerfinu, bæta merkingar og auka fræðslu og forvarnir. Þetta eru allt aðkallandi verkefni því stærstu hagsmunirnir verða ekki metnir til fjár.

Eitt af lykilverkefnum félagsins er að gera tryggingarnar skýrar og aðgengilegar, bjóða fjölbreytta valkosti í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini.  Á árinu 2016 var áfram unnið að því að einfalda verkferla, skilmála og framsetningu þeirra. Vefur Sjóvár, sjova.is, var endurritaður og endurhannaður með sama markmiði og má með sanni segja að sú aðgerð hafi heppnast vel. Vefurinn hlaut Íslensku vefverðlaunin sem besti fyrirtækjavefurinn 2016 í flokki stærri fyrirtækja. Vísað var til þess að vefurinn væri „gott dæmi um hvernig hægt er að taka nokkuð þurrt og tormelt viðfangsefni og setja það fram á einfaldan, skýran og áhugaverðan hátt“. Við erum afar stolt af viðurkenningunni því við viljum að viðskiptavinir okkar hafi greiðan aðgang að upplýsingum og geti með einföldum hætti átt samskipti við okkur.

Við merkjum það að viðleitni okkar til að gera tryggingar aðgengilegri séu að skila sér í aukinni ánægju viðskiptavina og það var sannarlega ánægjulegt að fá staðfestingu þess í nýjustu mælingu Íslensku ánægjuvogarinnar fyrir árið 2016. Sjóvá tók stórt stökk upp á við og hækkaði rúmlega tvöfalt á við tryggingamarkaðinn og er það besti árangur Sjóvár frá upphafi mælinga.

Á árinu var 4DX aðferðafræðin innleidd, sem hefur reynst vel. Hún miðar að því að breyta verklagi og bæta það með markmiðasetningu og  skuldbindingum sem allar miða að því að ná langtímamarkmiði Sjóvár um ánægðustu viðskiptavini tryggingafélaga.

Árið 2016 var Sjóvá efst tryggingafélaga í árlegri starfsánægjukönnun VR um Fyrirtæki ársins. Þessi árangur ber fyrirtækjamenningu, stjórnun og starfsanda góðan vitnisburð. Jafnlaunavottun félagsins var endurnýjuð í byrjun árs án athugasemda í úttekt á jafnlaunakerfi félagsins. Enginn launamunur mældist í vottunarferlinu. Starfsánægja og aukin ánægja viðskiptavina er ekki tilviljun háð, heldur byggja þessar niðurstöður á þeim mannauði, reynslu og þekkingu sem er í Sjóvá. Hjá félaginu starfar góð blanda af eldra starfsfólki með áratugalanga starfsreynslu og yngra starfsfólki, bæði í aldurs- og starfsárum. Saman gerir þessi hópur félagið að því sem það er, framsækið félag með mikla reynslu innanborðs.

Það er bjart yfir íslensku efnahagslífi og velsæld einstaklinga og fyrirtækja að aukast. Það er hlutverk okkar að styðja við og fylgja þeim vexti og þeim breytingum sem eiga sér stað í umhverfi okkar viðskiptavina og aðlagast þeim. Örar tækniframfarir breyta að líkindum hegðun okkar og samfélagi til muna á næstunni. Nú þegar eru sjálfkeyrandi bílar komnir í umferð erlendis og aðeins tímaspursmál hvenær sú tækni nær hingað til lands. Hegðun og neyslumynstur ungs fólks í dag er að breytast hratt frá því sem verið hefur auk þess sem sumar neysluvörur og þjónusta sem áður voru keyptar og seldar eru nú lagðar fram í skiptum einstaklinga á milli.  Við þurfum að laga okkar vöruframboð, markaðssetningu og viðskiptahætti að þessum breytingum og nýjum kynslóðum.

Ég vil fyrir hönd Sjóvár þakka öllum viðskiptavinum fyrir það traust sem þeir sýndu félaginu á liðnu ári og ánægjuleg samskipti. Við munum áfram leggja okkur fram að standa undir því trausti og styrkja viðskiptin til framtíðar. Einnig vil ég þakka stjórnarmönnum Sjóvár fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Samstarf Sjóvár og Landsbjargar

Á árinu 2016 endurnýjuðu Sjóvá og Slysavarnafélagið Landsbjörg samstarfssamninga sína en Sjóvá hefur verið bakhjarl samtakanna frá stofnun þeirra árið 1999. Félögin vinna náið saman að margskonar forvarna- og öryggisverkefnum. Sjóvá tryggir björgunarsveitarfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt því að tryggja eignir og búnað sveitanna um allt land.

Hjá björgunarsveitunum eru meira en 4.200 sjálfboðaliðar tilbúnir að bregðast við útköllum allan ársins hring, nótt sem dag. Þess vegna er Sjóvá aðalstyrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar.